150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

[12:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að standa fyrir þessari mikilvægu umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir að svara. En þá er mikilvægt að umræðan, eins og umræða um loftslagsmál og umhverfismál almennt, sé til þess fallin að skila okkur áfram veginn, skila einhverjum árangri. Það er t.d. ekki æskilegt og í rauninni bara á margan hátt skaðlegt að viðhafa fyrst og fremst hræðsluáróður um umhverfismál og loftslagsmál, að börn komi skelfingu lostin heim úr skólanum og telji að heimurinn sé að farast. Við verðum að nálgast þessi mál, þetta stóra viðfangsefni, á forsendum staðreynda, með tilliti til vísinda og með tilliti til samhengis. Hvað er til að mynda eitt það besta, jafnvel albesta, sem Íslendingar hafa gert gagnvart loftslagsmálum í heiminum? Það er að reisa álver, að álverin skyldu byggð á Íslandi og notast við endurnýjanlega umhverfisvæna orku í stað þess að vera byggð í Kína þar sem losunin hefði verið tíföld á við það sem sams konar álver losar á Íslandi enda orkukerfið þar keyrt áfram með gegndarlausum kolabruna.

Nú boða menn urðunarskatt til að refsa fólki fyrir að henda hlutum. Hvers vegna ekki að leggja áherslu á aðra valkosti, til að mynda að hér verði reistar hátæknisorpbrennslur og þær brennslur notaðar til að framleiða orku? Heimilissorp er umhverfisvænasta eldsneytið til orkuframleiðslu.

Við getum ekki brugðist við með því að reyna að lifa eins og í sænskri hippakommúnu. Við verðum að leyfa vísindunum að leysa þetta fyrir okkur því að það eru þau sem hafa skilað mestum árangri gagnvart mengun til að mynda fram að þessu. Á þeim árangri þarf að byggja og umfram allt á staðreyndum, (Forseti hringir.) samhengi og leitinni að lausnum sem raunverulega virka.