150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

[12:45]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni þessa máls fyrir að taka þetta ágæta mál upp, loftslagsmálin, sem ég tel að við ættum að ræða miklum mun meira í þessum þingsal en við gerum.

Mig langar hins vegar að koma inn á kostnað við aðgerðir þær sem t.d. hæstv. forsætisráðherra hefur lýst hér. Þær eru vissulega metnaðarfull markmið eins og vinsælt er að lýsa þessi dægrin. Það verður að huga vel að peningunum. Peningar eru takmörkuð auðlind í ríkiskassanum. Í þeim efnum þarf að huga að kostnaði líka. Ég vil nefna sérstaklega að á árunum 2011–2013 voru gerðar lagabreytingar í tíð vinstri ríkisstjórnarinnar sem kváðu á um að auka þátt kolefnisjöfnunar í samgöngum með því að skylda íblöndun á lífeldsneyti í eldsneyti sem fyrir er. Þetta hefur leitt til kostnaðar upp á 1,2 milljarða á ári, miðað við svar sem ég fékk, sem renna beint til erlendra framleiðenda á lífeldsneyti sem flutt er hingað inn.

Þetta telja menn vera dæmi um kolefnisjöfnun sem almenningi stendur til boða og er vissulega jákvætt skref, eykur meðvitund almennings á því að losun kolefnis á einum stað þarf kannski að bæta á öðrum stað. Það vakti athygli mína nýverið að íslensk fyrirtæki eru farin að bjóða upp á þessa kolefnisjöfnun með miklu hagkvæmari hætti. Ég tek sem dæmi Kolvið og Votlendissjóð sem býður upp á kolefnisjöfnun fyrir 4–15 kr. á lítrann en þessi íblöndunarskylda kallar á kolefnisjöfnun sem kostar 90 kr. á hvern lítra. Svo virðist sem hin innlenda jöfnun sé ekki aðeins miklu ódýrari en sú innflutta (Forseti hringir.) heldur kallar hún bæði á minni eldsneytiseyðslu og miklum mun bættari landgæði í kaupbæti.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji ekki nauðsynlegt að endurskoða þessar reglur með tilliti til þess kostnaðar og fjár sem streymir viðstöðulaust úr landi daglega.