150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

[13:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég vil sömuleiðis segja að það er skaði að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé komi ekki hér upp á eftir mér í stað þess að vera á undan mér því ég hefði beint spurningu til virðulegs þingmanns Kolbeins Óttarssonar Proppés um hvort hann mæti það sem svo að það skipti máli hvar í heiminum losun koltvísýrings á sér stað. Ég ætla að leyfa mér að beina þessari spurningu til hæstv. forsætisráðherra, ef hún hefur tíma til að koma inn á það í seinni ræðu sinni, hvort hún meti það sem svo að það skipti máli hvar í heiminum losun eigi sér stað.

Það er nefnilega staðreynd að það er mikið verk að vinna en við verðum líka að einbeita okkur að þeim lausnum sem skipta máli og skila árangri. Mig langar að taka tvö dæmi um það að búið er að leggja á gjöld eða fyrirsjáanlegan kostnað án þess að stjórnvöld treysti sér til að svara því hvaða árangri viðkomandi ákvarðanir skila. Í fyrsta lagi hefur verið lagt á kolefnisgjald og það hefur verið hækkað ítrekað. Ítrekað hefur hæstv. umhverfisráðherra verið spurður og fleiri ráðherrar raunar hvort menn viti hver árangurinn er af þessari gjaldtöku. Staðreyndin er sú að menn treysta sér ekki til að svara því. Og nú á að fara að moka ofan í skurði um landið þvert og endilangt án þess að menn viti raunverulega hvaða áhrif það hefur. Það skiptir auðvitað miklu máli hvort skurðurinn er nýr eða gamall, í hvers lags jarðvegi hann er og þar fram eftir götunum, en áfram er keyrð lausnin án þess að menn séu með fullnægjandi vitneskju um það hver raunverulegur árangur verður.

Síðan má horfa til þess, þó að tíminn sé stuttur og hlaupinn frá mér, að menn nefna fyrst og fremst stóriðju, flugsamgöngur og sjávarútveg sem tækifæri til mikils niðurskurðar í kolefnislosun þegar staðreyndin er sú að sjávarútvegurinn í heild hefur þegar náð þeim markmiðum (Forseti hringir.) sem menn settu sér í París. En þar skal áfram sverfa til stáls. Þetta undirstrikar það sem ég er að reyna að segja, (Forseti hringir.) við verðum einhvern veginn að nálgast þessi mál öðruvísi þannig að við beinum orku okkar þangað sem árangur getur náðst.