150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

[13:09]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu. Til að takast á við loftslagsvána þarf samstillt átak stjórnvalda og ekki síst almennings. Við þurfum að nýta auðlindir jarðarinnar með ábyrgari hætti ef ekki á illa að fara. Vinnum saman að vitundarvakningu.

Hvaðan kemur maturinn? Er hann úr nærumhverfi? Framleiddur á umhverfisvænan hátt? Er hann framleiddur í fjarlægri heimsálfu og hefur jafnvel þurft að eyða skógi til að rýma fyrir landi til akuryrkju? Aukum því eigin framleiðslu á matvælum, drögum úr neyslu og nýtum betur, hendum minna. Auka þarf upplýsingagjöf og fræðslu til handa neytendum og almenningi en umfram allt þurfum við að sýna skynsemi. Ísland á að sýna ábyrgð í loftslagsmálum, sem við gerum. Sú ábyrgð getur falist í skynsamlegri nálgun á þessa hluti. Við eigum að vinna ötullega að orkuskiptum í samgöngum. Við eigum að framleiða mat og aðrar vörur sem hagkvæmt er að framleiða hér á landi, lágmarka kolefnisspor vegna flutninga erlendis frá. Við eigum að leitast við að draga skynsamlega úr neyslu okkar á hlutum sem við þurfum ekki nauðsynlega á að halda, nota endurnýtanleg efni í sem flesta hluti, minnka matarsóun, græða upp land og rækta skóga til að binda kolefni. Svo mætti lengi telja áfram.

Grundvallaratriðið er þetta: Gerum hlutina af skynsemi en ekki öfgum. Þá munum við ná árangri saman. Samvinna án öfga er rétta leiðin.