150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

10. mál
[13:31]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt (endurgreiðslu vegna vinnu á byggingarstað). Þetta er á þskj. 10. Flutningsmenn frumvarpsins eru, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Jón Gunnarsson, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson. Í sjálfu sér er málið tiltölulega einfalt. Eins og getið er í greinargerð var þetta mál lagt fram á síðasta þingi en komst ekki lengra. Það komst ekki einu sinni á dagskrá þingsins, hvað þá lengra. Ég vona að við náum aðeins meiri árangri núna.

Byggjendum eða eigendum íbúðarhúsnæðis er endurgreiddur sá virðisauki er þeir greiða af vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds. Hann var að fullu endurgreiddur frá 1. mars 2009 til 1. janúar 2015 en þá var endurgreiðslan lækkuð í 60%. Virðisaukaskattur vegna vinnu við frístundahúsnæði, hvort heldur var vegna nýbygginga eða endurbóta og viðhalds, var einnig endurgreiddur að fullu til 1. janúar 2015 en eftir það féll sú endurgreiðsla niður. Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af efni eða vinnu stjórnenda farandvinnuvéla eða vinnuvéla sem skráningarskyldar eru á vinnuvélaskrá. Endurgreiðslan er m.a. háð framlagningu fullgildra reikninga frá seljanda þjónustunnar sem verður að vera skráður á virðisaukaskattsskrá, þ.e. að vera með opið vasknúmer eins og það er kallað, á þeim tíma þegar vinnan er innt af hendi.

Í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum, um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, var fjallað um að bregðast bæri við þeirri hækkun byggingarkostnaðar sem fælist í því að byggingarvinna sem áður var undanþegin söluskatti yrði framvegis virðisaukaskattsskyld. Var farin sú leið að mæla fyrir um að endurgreiða skyldi virðisaukaskatt af vinnu við nýbyggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis að fullu, samanber 13. gr. laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 119/1989. Endurgreiðsluhlutfallið var hins vegar lækkað í 60% með lögum nr. 86/1996 og lögum nr. 149/1996. Með lögum nr. 10/2019 var endurgreiðsluhlutfallið aftur hækkað, þ.e. úr 60% í 100%, með sérstöku bráðabirgðaákvæði í lögum um virðisaukaskatt.

Í greinargerð frumvarpsins kom fram að markmið með hækkun endurgreiðslunnar væri að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingamarkaði. Það er óhætt að fullyrða, frú forseti, að markmið frumvarpsins árið 2009 hafi náðst sérstaklega vel. Lækkun endurgreiðslunnar árið 2015 vinnur í þveröfuga átt og sá er hér stendur heldur því fram að það hafi verið mistök að hefja þá vegferð árið 2015. Vísbendingar eru um að með lægri endurgreiðslu hafi svört atvinnustarfsemi aukist og heildarskatttekjur ríkissjóðs orðið lægri en ella. Því er óvíst að frumvarp þetta, nái það fram að ganga, hafi neikvæð áhrif á tekjur ríkisins þrátt fyrir aukin útgjöld af endurgreiðslu virðisaukaskatts. Ég ætla raunar að leyfa mér að halda því fram að hægt sé að færa rök fyrir því að tekjur ríkissjóðs muni aukast með því að við munum færa starfsemi upp á yfirborðið, skil á virðisaukaskatti munu aukast; þó að endurgreiðslur af því aukist falla líka til tryggingagjöld, tekjuskattur o.s.frv. af þeirri vinnu sem hér um ræðir.

Með þessu frumvarpi er lagt til að virðisaukaskattur af vinnu við byggingu eða viðhalds íbúðarhúsnæðis verði að nýju endurgreiddur að fullu. Ekki er gerð tillaga um að sams konar endurgreiðsla vegna frístundahúsa nái fram að ganga að svo stöddu en þó eru sterk rök fyrir því að það verði gert. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að hugað verði að þeim þætti síðar, jafnvel í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem lagt er til að fái frumvarpið til umfjöllunar. Þá má ætla að byggingarkostnaður íbúða geti lækkað um allt að 3% nái frumvarpið fram að ganga.

Frú forseti. Að að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.