150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

10. mál
[13:37]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem í pontu til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta mál. Ég held að þetta sé gott mál og ég studdi það heils hugar þegar vinstri stjórnin tók það upp árið 2009. Þetta var alveg til 2015, eins og hv. þingmaður gat um, 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti á þessari tilteknu vinnu. Ég held að við eigum að einhenda okkur í að samþykkja þetta mál.

En mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann hvort til greina komi að hans mati að víkka þetta mál aðeins út. Þá á ég við: Kemur til greina, að mati þingmannsins, að láta þetta t.d. ná til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna heimilisþrifa ræstingafólks? Þetta hefur verið gert í Svíþjóð með góðum árangri og eiginlega með sömu rökum og hv. þingmaður talar fyrir, um að nauðsynlegt sé að tryggja réttindi þess fólks sem starfar á þessum markaði en sömuleiðis að fá þennan hluta markaðarins upp á yfirborðið. Þá held ég að það eigi sömuleiðis við um þennan markað, þ.e. um heimilisþrif. Stór hluti heimilisþrifa er að sjálfsögðu unninn í hefðbundinni verktakavinnu en í umræðunni hefur verið bent á að hugsanlega sé hluti af þessari vinnu unninn undir yfirborðinu. Ég held að svona skref, með því að taka tillit til þessarar vinnu, sem kannski beinist að konum sérstaklega, ef litið er til markaðarins, væri mjög skynsamlegt að stíga, að við myndum draga þennan markað fram í dagsljósið. Að sama skapi myndum við auka réttindi og vernd þess fólks sem vinnur við heimilisþrif. Mig langar endilega að fá skoðun hv. þingmanns á þessu og hvort hann sé hugsanlega til í að skoða þetta í meðförum þeirrar nefndar sem þetta mál fer til og hann er formaður fyrir.