150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

10. mál
[13:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Mín spurning kom í raun fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar og varðar kvennastéttir eða kvennastörf, getum við sagt, sem oft tengjast heimilishaldi o.fl. Mér fannst hv. þingmaður einmitt svara því og ég vil fagna því sérstaklega að það verði skoðað og brýni hv. þingmann og nefndina til að svo verði gert. Ég hlustaði á andsvör áðan og hlakka til að fá að ræða þessi mikilvægu og skemmtilegu mál sem hv. þingmaður er að vinna að. Ég vona að þessi mál fái framgang hér.

En við þekkjum það líka hvernig það er oft með þingmannafrumvörp. Ég hugsaði með mér: Það mál sem við ræðum hér, varðandi 100% endurgreiðslu á byggingarkostnaði, af hverju var það ekki ríkisstjórnarmál? Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn, auk ýmissa annarra hér í salnum í stjórnarandstöðu, hafa með einum eða öðrum hætti komið að því að styðja mál af þessu tagi, hvort sem talað var um 60% á sínum tíma eða 100%, þannig að ég hefði haldið að málið hefði verið til þess fallið að ríkisstjórnin tæki það upp. Með þessu er ég alls ekki að lýsa yfir vantrausti á hv. þingmann, ég trúi honum og treysti til allra góðra verka.