150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

10. mál
[13:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði nú kannski klætt mig í bjartari liti en ég er í akkúrat núna, það er gaman að þessu. Ég hlakka sérstaklega til, þó að það sé ekki þetta mál, að ræða starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka, en ekki síður menningargeirans, listir og menningu. Ég held að það skipti okkur gríðarlega miklu máli að heildstæðari mynd verði sett upp, ekki síst í þágu menningar og lista, hér á landi. En það er gott að ríkisstjórnin hlustar á sína eigin þingmenn og tekur upp ágætismál. Ég hefði einmitt haldið að þetta væri eitt af þeim málum sem upplagt væri fyrir ríkisstjórnina að taka upp. Á árum áður, á fundum ráðherra og þingmanna flokksins, var hlustað á það hvað væri gott að taka inn í þingmálaskrá. En það kann að hafa breyst.

Mér finnst líka áhugavert að sjá þingmálaskrána. Ég fagna því sérstaklega að ríkisstjórnin ætli að fella niður mannanafnanefnd, því að hér felldu ríkisstjórnarflokkarnir að leggja niður mannanafnanefnd en koma nú með sína útgáfu. Það skiptir greinilega máli hvaðan gott kemur, þau vilja eigna sér þetta sjálf. Fyrir mína parta, svo lengi sem málið nær fram að ganga, skiptir það ekki öllu hver flytur það hverju sinni. Ég sé líka að ríkisstjórnin ætlar að fara fjallabaksleið að því að setja vín í búðir í gegnum netið og ég held að það sé líka ágætismál. Ég vona að dómsmálaráðherra komi fram með þetta mál sem allra fyrst, að þetta sé ekki bara sýndarmennska af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég held að þetta sé gott dæmi um að þingið geti haft áhrif á málaskrá ríkisstjórnarinnar og ég vona að það verði um önnur ágætismál og ekki síst frelsismál að ræða. Ég vil hvetja hv. þingmann, frelsisunnandann holdi klæddan, til að ýta undir enn frekari frelsismál hjá ríkisstjórninni.