150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

10. mál
[13:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir þetta frumvarp og þeim sem að því standa. Ég styð það heils hugar. Sérstaklega get ég stutt þetta frumvarp á þeim forsendum að ég bý í húsnæði sem verið er að endurbyggja. Það er eldgamalt húsnæði sem hélt hvorki vatni né vindi. Þegar kostnaður við endurbyggingu á gömlu húsnæði er kominn um eða yfir 10% af andvirði íbúðarinnar erum við ekki að tala um neinar smáupphæðir. Við erum að tala um 4, 5 eða 6 milljónir. Fyrir þá sem eru á lágmarkslaunum eða á bótum almannatrygginga verður sá kostnaður óyfirstíganlegur. Fyrir okkur hin er þetta miklu minna mál. Það sem er sorglegast í þessu er að á sama tíma og við getum kannski fjármagnað þetta án þess að taka lán eða fengið hagstæð lán þurfa aðrir jafnvel að fjármagna slíkt á dráttarvöxtum eða mjög óhagkvæmum lánum. Sumir geta með engu móti skorið niður, fólk sem þakkar fyrir að eiga til hnífs og skeiðar og ferða til og frá vinnu yfir mánuðinn.

Ég spyr: Væri ekki hægt að víkka þetta út? Það er eitt að vinnan sé virðisaukaskattslaus en annað að hafa yfirleitt efni á því sem þarf að gera. Ef tæki á salernum eða í eldhúsum bila er mjög dýrt að kaupa ný. Ég hef aðeins kannað það og það kostar milljónir að endurnýja eitt baðherbergi og annað eins að endurnýja eldhús. Þess vegna er spurning hvort ekki sé hægt að víkka þetta þannig út að þeir sem eru verst settir í þessu þjóðfélagi geti sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts, t.d. á tækjum sem þeir þurfa á að halda til að geta staðið í endurnýjun. Í því samhengi má benda á að það er gífurlegur kostnaður við að skipta út rúðum, þar er stór peningur. Ég myndi segja að þarna þyrftum við að taka inn að það kostar mikla peninga að kaupa það sem nauðsynlega þarf til að hús haldi veðri og vindum og geta sinnt því sem við þurfum að gera á okkar heimili. Fólk ætti að geta sótt um niðurfellingu á ákveðnum hlutum þegar það er undir þeim tekjumörkum að geta yfirleitt staðið straum af þeim kostnaði sem af hlýst. Ég vona að það verði líka tekið inn í þetta dæmi.

Eins og ég segi: Ég styð þetta heils hugar, það skiptir fólk í þessari stöðu gífurlega miklu máli að fá þessa endurgreiðslu.