150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

10. mál
[14:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég vil fyrst og fremst fagna því að þetta mál sé fram komið og viðurkenna um leið að ég skammast mín svolítið fyrir að hafa ekki lagt eitthvað sambærilegt fram á fyrri stigum. Þetta passar vel við þá sýn okkar í Miðflokknum að reyna að hafa skattheimtu sem hóflegasta og jafnframt ýtir þetta undir þau markmið sem sett eru fram af flestum sem koma að löggjafarsamkundunni á Alþingi, að lækka byggingarkostnað, gera kerfið gegnsærra, einfalda innheimtu og þar fram eftir götunum. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með þetta mál og ég vona að það fái brautargengi og hraða og snaggaralega afgreiðslu í nefnd og síðan aftur í gegnum fullnaðarlúkningu á þingi.