150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:22]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki svarað fyrir aðra en mig þegar ég fullyrði að mér takist að horfa á þingmál í stærra samhengi en að það snúist um persónur og leikendur akkúrat þegar ég tala um það. Þannig snýst þetta mál ekki á nokkurn hátt um þann einstakling sem nú gegnir embætti utanríkisráðherra, enda veit ég ekki til annars en að síðustu viðbætur um bókanir við varnarsamninginn hafi ekki verið gerðar í tíð þess hv. utanríkisráðherra. Þetta snýr að öllum utanríkisráðherrum, þar með talið hv. þingmanni sem eitt sinn gegndi því embætti. Þetta snýr að því að koma á eðlilegum samskiptum á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins, ekki um persónur og leikendur í dag, hvaða dagsetning sem annars er í dag, ég verð að biðjast forláts á að ég man ekki nákvæmlega hvaða dagur er í dag.

Já, það er mjög auðvelt að falla í þá gryfju sem hv. þingmaður gerir og segja: Hér eru Vinstri græn búin að kasta öllum sínum hugsjónum fyrir róða. Það er hins vegar staðreynd að hér á Alþingi Íslendinga er aðeins einn flokkur sem deilir þessum hugsjónum með okkur, þ.e. að Ísland eigi ekki að vera í NATO og að hér eigi ekki að vera her. Já, við getum kallað það hvað sem er. Í það minnsta var ákveðið að taka þátt í ríkisstjórn þrátt fyrir að aðrir flokkar væru ekki sammála okkur um þetta. Þetta er ekki ríkisstjórnarmál af því að ég er því miður ekki ráðherra og ég vann þetta mál. Þetta hefur verið kynnt (Gripið fram í: Stendur til bóta.) — stendur til bóta, krossum fingur — hæstv. ráðherra. Ég fæ kannski að koma að síðasta atriðinu varðandi eðlilegt viðhald, af því það er dálítið flókin spurning og ég skil hana vel, í seinna andsvari.