150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ánægjulegt að sjá að þingmaðurinn neitar því ekki að Vinstri græn hafi kastað hugsjón sinni eða stefnu um aðildina að NATO út í myrkrið, því að vitanlega sjá allir að þetta er einhvers konar neðanmálsgrein hjá flokknum þegar kemur að því að mynda ríkisstjórnir. Ég skildi hv. þingmann hins vegar þannig að mál þetta hefði verið kynnt fyrir utanríkisráðherra. Það er ágætt. Það verður fróðlegt að sjá hans skoðun á málinu. Ég ítreka spurningu mína varðandi eðlilegt viðhald, hvar mörkin eru, því að þetta er í rauninni eitthvert pirringsmál út af samskiptaleysi milli utanríkisráðherra og annarra ráðherra í ríkisstjórn eða á milli stjórnarflokkanna. Það er hins vegar ágætisferli á Alþingi varðandi utanríkismál. Það er skrifað inn í ákveðnar starfsreglur, og reyndar lögin líka, að utanríkisráðherra skuli hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar utanríkismál. Þá hlýtur maður spyrja hv. þingmann hvort hann sé að tala um að þetta falli undir meiri háttar utanríkismál, t.d. viðhald á Keflavíkurflugvelli.