150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:25]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er bara allt í lagi ef hv. þingmaður og fleiri hér nýta þetta mál til að reyna að skora pólitískar keilur varðandi veru Vinstri grænna í núverandi ríkisstjórn sem og öðrum. Það er fínt. Þetta mál snýst ekki um Vinstri græna og ef það veitir fólki einhverja fróun að berja á Vinstri grænum er það bara fínt. Ég hef breitt og loðið bak og skal taka við því. (Gripið fram í.) Þetta mál snýst um virðingu Alþingis, að lyfta Alþingi upp og efla lýðræðislegar umræður.

Reglulega koma upp umbótahugmyndir um hvernig betra sé að gera hluti, hvernig samskiptum framkvæmdarvaldsins og löggjafans væri betur háttað. Ég hef ekki litið svo á að í öllum þeim felist vantraust eða yfirlýsing um að þeir ráðherrar eða framkvæmdarvaldið, sem nú sér um málið, geri það ekki nógu vel. Erum við ekki að reyna að þroskast og komast áfram og hafa hlutina betri?