150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fjalla efnislega um afstöðu mína til þessa frumvarps, ég hygg að hv. frummælandi viti um það. Það kemur síðar. Ég er þó sammála a.m.k. einni setningu í greinargerðinni þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sem afstaða fólks er til viðveru starfsfólks herliða og uppbyggingar mannvirkja á varnarsvæðinu hlýtur það að vera kappsmál allra að auka lýðræðislega umræðu um varnarmál.“

Ég er sammála þessu. Ég hygg einmitt að það að auka umræðu um mikilvægi samvinnu okkar í Atlantshafsbandalaginu, mikilvægi varnarsamningsins við Bandaríkin, auki skilning landsmanna á mikilvægi þessarar þátttöku okkar. Að því leyti fagna ég frumvarpinu alveg óháð efnislegu innihaldi þess vegna þess að það er ekki of oft sem við fáum tækifæri til þess að ræða hér um stefnu í öryggis- og varnarmálum landsins. Eftir því sem umræðan er meiri og dýpri þeim mun meiri verður skilningur almennings og því meiri verður stuðningurinn við núverandi stefnu sem hefur verið órofa síðustu áratugi.

Ég vil hins vegar spyrja hv. frummælanda hvort þeir sem að frumvarpinu standa hafi velt fyrir sér hvort vera kunni að frumvarpið geti með einhverjum hætti gengið gegn þjóðaröryggishagsmunum þjóðarinnar, (Forseti hringir.) þ.e. að öryggishagsmunum Íslendinga kunni að vera ógnað með einhverjum hætti með þessu frumvarpi og hvort það í einhverjum atriðum gangi gegn samþykktri (Forseti hringir.) þjóðaröryggisstefnu landsins frá árinu 2016.