150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er allrar athygli vert. Þetta er forgangsmál, það hefur áður komið fram, hjá Vinstri grænum og það er að sjálfsögðu virðingarvert. Það er alltaf gott þegar þingflokkar, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, leggja sig fram og þora að segja hver eru forgangsmálin hjá þeim hverju sinni. Ég get í grunninn tekið eindregið undir það að við eigum að efla aðkomu þingsins. Við eigum að efla þessi samskipti og líka að tryggja það regluverk sem er á milli utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra um aukin samskipti og upplýsingagjöf. Sú upplýsingagjöf hefur ekki verið neitt sérstök af hálfu utanríkisráðherra, og sit ég í utanríkismálanefnd. Það hefur frekar þurft að ýta eftir hverjum einustu upplýsingum í málum en að þeim sé miðlað að frumkvæði utanríkisráðuneytisins til utanríkismálanefndar.

Ég vona að hugsunin sé sú að þetta sé ekki til heimabrúks fyrir Vinstri græn til þess að sefa ótta í grasrótinni yfir því að ákveðin hernaðaruppbygging á sér stað núna. Það er ýmislegt að breytast á vakt Vinstri grænna. Ég vona að þetta mál sé sprottið af einlægum áhuga hjá Vinstri grænum á því að efla umræðu um þjóðaröryggismál, um varnarmál. Og við þurfum að fara að nálgast varnarmál með öðrum hætti en á kaldastríðstímanum, það bara verður að segjast eins og er. Við munum fara mjög vel yfir þetta mál og ekki mun standa á Viðreisn varðandi það að málið fái afgreiðslu. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvað fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd gera með málið. Ef þetta mál verður til þess að ýta undir það að við getum barist fyrir því að viðauki verði gerður við varnarsamninginn, viðauki sem tengist þjóðaröryggismálum, viðauki sem er gríðarlega mikilvægur varðandi netöryggi en ekki síður loftslagsmálin, að við setjum inn í viðauka ákvæði um loftslagsmál byggð á íslenskum forsendum og íslenskum sjónarmiðum en ekki bandarískum, væri til mikils unnið.