150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:36]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Nú gerist það trekk í trekk að ég er sammála þeim sem koma í andsvör við mig — og ég vona að þetta falli utan samsvarareglunnar frægu. Það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart. Ég veit að hv. þingmaður er einlæg áhugakona um eflingu lýðræðislegrar umræðu þannig að það kemur mér ekkert á óvart að heyra stuðning hennar við þá hugmynd að sú umræða fari meira fram í þessum sal og að ákvarðanir verði teknar hér.

Hv. þingmaður velti fyrir sér tilgangi með framlagningu frumvarpsins, hvort það væri til heimabrúks eða stafaði af einlægum áhuga, og sagðist vonast til þess að það væri ekki til heimabrúks. Ég held að ég hafi, í það minnsta í tveimur umræðuþáttum með hv. þingmanni, svarað þessu akkúrat eins og ég mun gera núna í þriðja sinn: Þetta mál er ekki lagt fram til neins heimabrúks — ég er einfaldlega ekki nógu slægur stjórnmálamaður til að hafa áttað mig á þeim möguleika — heldur er þetta lagt fram af einlægum áhuga. Ég er nefnilega algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði um það að efla þurfi umræðu um málið. Ég hygg að miðað við það sem hv. þingmaður kom inn á megi kannski bara finna sömu strengi í hörpum okkar hvað það varðar að einhverju leyti. Svo má vel vera að að einhverju leyti séu þar ósamstilltir strengir. Ég hef einmitt litið svo á að gamaldags hugsun hafi um of ríkt í varnarmálum og vil tengja þetta eins og annað loftslagsmálum.

Ég vona að ég sé ekki að missa af einhverri spurningu; hv. þingmaður kemur þá inn á hana. En í það minnsta hef ég þá skýrt tilgang þessa frumvarps sem er að efla þessa umræðu og mikilvægi Alþingis í henni.