150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:40]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hér er spurt um viðhorf utanríkisráðherra. Ég held að það samtal verði að eiga sér stað við hæstv. ráðherra sjálfan. Ég vona innilega að hæstv. utanríkisráðherra hafi svipuð viðhorf til þessa máls og flokksbróðir hans, hv. þm. Óli Björn Kárason, sem talaði hér rétt áðan. Ber ég von til þess að þetta mál rati inn í þingmálaskrá eða sáttmála ríkisstjórnar á næsta ári? Nei, ég ber enga von til þess. Ég ber von til þess að málið verði samþykkt á yfirstandandi þingi og það þurfi ekki að endurflytja málið. Ég trúi því nefnilega þegar hv. þingmenn segja að þeir vilji efla umræðu um varnarmál, að þeir vilji veg og vanda Alþingis sem mestan og þátt þess í ákvarðanatöku. Þess vegna trúi ég því, forseti, að þetta mál verði einfaldlega samþykkt.

Ég verð að játa á mig vanþekkingu. Ég hef aldrei setið í utanríkismálanefnd. Ég treysti mér ekki alveg til að úttala mig um hugmyndir mínar um greiðari aðgang að gögnum ráðherra. Ég biðst bara forláts á því.