150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:41]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð í þessum ræðustól um þetta mál og er eiginlega eingöngu hingað kominn til að lýsa yfir stuðningi við málið. Mér finnst þetta gott mál og ég vænti þess og vona að um það geti myndast þverpólitísk samstaða vegna þess að það snýst náttúrlega um að auka hlut löggjafans, löggjafarvaldsins, í því að koma að ákvörðunum í þessum mikilsverðu málum. Sjálfur tel ég að Ísland, og mér finnst þetta mál styðja það, eigi að vera fullgildur aðili í samfélagi þjóða og að Íslendingar eigi að taka þátt í alþjóðasamstarfi með þeim þjóðum sem þeir eiga samleið með á fullan hátt og af fullu stolti. Ég er algerlega andvígur þeirri stefnu, sem manni finnst stundum örla á, að menn líti svo á að Íslendingar eigi að vera nokkurs konar laumufarþegi í heiminum, þeir eigi einhvern veginn að smygla sér sem eitthvert kríli með stórhvelunum og lifa á þeim og vera með þeim í för, vegna þess að stórhvelin geta verið mjög hættuleg. Það sem lítil þjóð þarf mest á að halda í alþjóðasamskiptum er að það séu skýrar reglur og að farið sé að skýrum reglum og að smáþjóð geti reitt sig á það að stóru þjóðirnar fari líka að þeim skýru reglum. Við erum að vísu eyja en í ótal málum erum við nátengd öðrum þjóðum. Þetta er náttúrlega þéttriðið net, alþjóðasamskipti eru þéttriðið net sem við getum ekki vikist undan að taka þátt í. Þar tel ég að við eigum að skipa okkur í flokk með þeim þjóðum sem deila með okkur menningarlegri sögu, menningarlegri arfleifð, hugsjónum og lýðræðishefðum. Þá er ég að tala um vestrænar lýðræðisþjóðir, ég er að tala um Evrópuþjóðir, ég er að tala um Norður-Evrópuþjóðir, ég er að tala Norðurlandaþjóðirnar. Þess vegna tel ég að Íslendingar séu fullsæmdir af því að taka þátt í samstarfi á borð við NATO og að þeir geti gert það algerlega á sínum forsendum en ekki á forsendum Bandaríkjanna eins og Íslendingar hafa gert til þessa í of miklum mæli að mínu mati, alveg frá fyrstu tíð.

Þá kem ég að því sem mig langaði að víkja örlítið að í sambandi við þetta mál og það er að alveg frá því að varnarstefnan var mótuð hér, í kjölfar þess að við fáum sjálfstæði okkar 1944, og svo 1949–1951, við þekkjum þau ártöl öll, hefur mótun stefnunnar of mikið farið fram í einhvers konar, hvað á maður að segja, kannski ekki laumuspili en það hafa verið ákaflega fáir sem hafa tekið mjög mikilvægar ákvarðanir sem varða alla þjóðina og hafa haft grundvallaráhrif á það hvernig þjóðfélag okkar hefur þróast. Þar hefur svo sannarlega skort á að þjóðin hafi verið höfð með í ráðum eins og hefði þurft. Hugsanlega gátu menn vísað til alls konar viðsjár í heiminum í kjölfar stríðsins, kalda stríðið var þá í fullum gangi. Á þeim tímum ásældist útþenslusinnað og árásarsinnað sovéskt heimsveldi lönd í Evrópu og var ástæða til að hafa varann á gagnvart því, en nú eru aðrir tímar. Nú er ekki árið 1949. Nú er ekki árið 1951. Nú er árið 2019 og aðalógnin sem steðjar að okkur sem samfélagi og okkur sem þjóð er loftslagsógn. Það er stærsta ógnin og ekki verður tekið á þeirri ógn nema í samstarfi þjóða og á alþjóðavettvangi. Auðvitað eru líka margs konar öryggisógnir, það er hryðjuverkaógn og það er ógn sem hlýst af netglæpum og þannig má áfram telja. Allar þær ógnir eiga það sammerkt að ekki verður tekist á við þær nema í góðu samstarfi þjóða sem við hljótum að taka þátt í með höfuðið hátt.

Við eigum ekki að reiða okkur á Bandaríkin eins og við höfum gert í allt of ríkum mæli alla okkar sjálfstæðistíð. Bandaríkjastjórn er ekki með þeim hætti um þessar mundir að hún sé vænleg til þess að reiða sig á og raunar hefur svo verið lengi. Ég er ekki einungis að tala um núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum, ég tel líka t.d. að stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak á sínum tíma hafi verið ákaflega misráðin og röng. Ég held að dæmin hafi sannað að sú innrás var misráðin.

Það eru margs konar blikur á lofti í heiminum og ég held að mikilvægt sé að við tökumst á við þær í samstarfi þjóða. Ég held líka að mikilvægt sé að kjörnir fulltrúar almennings, sem hér sitja, komi að því að taka ákvarðanir sem varða varnir landsins og varða hernaðaruppbyggingu hér á landi, þannig að ég styð þetta mál.