150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:51]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ansi góð spurning hjá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé og honum tókst næstum því að gera mig heimaskítsmát og gott ef honum tókst það ekki bara.

Ég er hreinlega alls ekki viss vegna þess að þetta vefst fyrir mér. Það er alls ekki augljóst að Íslendingar eigi að vera þátttakendur í hernaðarbandalagi. Það er fjarri því að vera augljóst, sérstaklega vegna þess að Íslendingar hafa ekki fram að færa neinn her. En þeir hafa hins vegar sína staðsetningu í heiminum. Íslenskt samfélag er staðsett á þeim stað þar sem það er og sú staðsetning var ákaflega hernaðarlega mikilvæg á tímum kalda stríðsins og hún er að verða það á ný, eins og við þekkjum öll með opnun norðurslóða og þar fram eftir götunum. Þessi staðsetning skiptir gríðarlegu máli og það eru margir sem líta hingað og margir sem geta hreinlega alveg hugsað sér að eignast þetta land. Það hefur að vísu ekki komið fram tilboð um að kaupa Ísland eins og Grænland, en við getum átt von á því þá og þegar. Hvað veit maður? En staðsetningin gerir það að verkum að margir ásælast land og aðstöðu hér og vilja jafnvel neyta ýmissa bragða til að komast yfir land hér. Hvað veit maður? Ég held því að það sé mjög gott að vera í skjóli, að vera í stóru skjóli þjóða, Evrópuþjóða, sem deila með okkur menningararfleifð, eins og ég kom að áðan, og deila með okkur hugsjónum og lýðræðishefð sem mér finnst ákaflega mikilvægt.