150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (afurðastöðvar í kjötiðnaði). Þetta frumvarp var lagt fram á síðasta löggjafarþingi, 149. löggjafarþingi, og er nú endurflutt. Flutningsmenn eru sá sem hér stendur, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þ.e. þingflokkur Framsóknarflokksins.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Á eftir 71. gr. laganna kemur ný grein, 71. gr. A, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar.“

Hver er tilgangurinn með því að leggja svona frumvarp fram? Ég vil vekja athygli á því að þetta er eitt af forgangsmálum þingflokks Framsóknarmanna þannig að þetta er ekki bara hugarfóstur bónda norðan af landi sem er það sem sumir myndu kalla mikið afturhald, heldur teljum við flutningsmenn þessa frumvarps að það sé nauðsynlegt til að mæta þeim áskorunum sem fram undan eru í íslenskum landbúnaði og í þessu tilfelli er átt við kjötiðnað.

Það er þannig í dag að afurðastöðvum í kjötiðnaði er óheimilt að hafa með sér samráð um nokkurn einasta hlut. Það er óheimilt að hafa samráð um birgðastýringu, óheimilt að eiga í verðsamráði o.s.frv. Allt samráð er bannað. Við þekkjum öll þá umræðu sem skapaðist í sumar þegar upphrópanir voru um að allir lambahryggir væru uppurnir í landinu og krafa kom frá versluninni þess efnis að flytja þyrfti inn lambahryggi frá útlöndum. Síðan kom á daginn, þegar hart var gengið eftir því, að til var nóg af hryggjum þannig að ráðherra fór ekki að vilja verslunarinnar um að fella niður tímabundið kvóta á lambahryggjum. Í þessu samhengi var mikið rætt um að afurðastöðvar hefðu sýnt ábyrgðarleysi framan af vetri við að flytja út dilkakjöt, læri, hryggi, framparta, og þannig komið markaðnum í þá stöðu að hér væru engir lambahryggir. En ef við horfum aðeins á þessa hluti frá sjónarhóli þeirra sem vinna við að sýsla með lambakjöt, þ.e. afurðastöðvanna, og segjum sem svo að við hefðum verið með þá heimild sem hér er fjallað um, undanþágu frá samkeppnislögum, og afurðastöðvarnar hefðu mátt vinna saman, velta fyrir sér stöðunni, taka stöðuna á því hvað markaðurinn þyrfti — þá hefði þessi umræða væntanlega aldrei farið á flug heldur. Þá værum við með birgðastýringu. Menn væru ekki að flytja um of út af þeirri vöru sem er ætlast til að standi Íslendingum til boða hérlendis. Við megum heldur ekki gleyma því að aðstæður eru mjög breyttar hvað varðar samkeppni á markaði og með breyttum tollasamningum. Við fjölluðum í vor um svokallað hráakjötsfrumvarp. Allar ytri aðstæður eru gjörbreyttar frá því sem var t.d. fyrir 20–30 árum. Afurðastöðvarnar og bændur eiga í hörkusamkeppni við stórfyrirtæki erlendis. Íslendingar eru að keppa á 500 milljóna manna markaði og við erum 370.000 með örlitlar afurðastöðvar í alþjóðlegum samanburði.

Í umræðu um þetta mál má til gamans geta þess að nú stendur fyrir dyrum útganga Breta úr Evrópusambandinu. Það var í fréttum um daginn, nú hefur ákveðinn samningur verið í gildi þar sem Bretar hafa verið í Evrópusambandinu, að Bretar hafa flutt til meginlands Evrópu 9 milljónir lambaskrokka innan sinna tollasamninga. Væntanlega breytist það eitthvað þegar Bretar verða gengnir úr Evrópusambandinu og ég vænti þess að Bretar leiti markaða fyrir sína vöru. Það á ekki bara við um lambakjöt. Þarna erum við að tala um 9 milljónir lambaskrokka. Við erum að framleiða 550.000 á Íslandi. Þetta eru bara 9 milljónir lambaskrokka af því sem þeir þurfa að flytja út frá sér. Það hljóta flestir sem velta því fyrir sér að sjá að sú heimsmynd og sá markaður sem kjötafurðastöðvar á Íslandi starfa á er gjörbreyttur frá því sem var. Því tel ég mjög mikið kappsmál fyrir matvælaframleiðsluna að fá þessa heimild.

Við ræddum fyrr í dag um loftslagsmál. Þar kom oft upp í umræðunni að við þyrftum að efla matvælaframleiðslu á Íslandi, að við ættum að líta okkur nær þegar við veltum fyrir okkur hvað við ætluðum að kaupa í matinn og fá matvöruna úr því nærumhverfi sem er hér á landi. Það er eitt markmið þessa frumvarps að skapa þannig stöðu á markaði að við getum þjónað þeim markaði sem okkur er ætlað að þjóna, innanlandsmarkaði. Þetta er klárlega í huga flutningsmanna hagsmunamál fyrir bændur og neytendur. Þetta er klárlega til eflingar á íslenskum matvörumarkaði. Ég vil benda á að við þekkjum sambærilegt dæmi mjög vel úr mjólkuriðnaðinum. Þar hefur þessi undanþága verið til fjölda ára. Þar var gerð hagræðingarkrafa og það hefur fyrst og fremst skilað sér í bættum rekstri afurðastöðva í mjólkuriðnaði — gott fyrir neytendur og gott fyrir bændur. Ég trúi því að það sama eigi við hér og ég vil líka minna á að við erum ekki bara að fjalla um dilkakjöt eða lambakjöt. Hér er allt undir, svín, naut og alifuglar.

Herra forseti. Að lokum vænti ég þess að einhver umræða verði um þetta mál. Ég vonast til þess að hv. atvinnuveganefnd, sem fær málið til umfjöllunar, vinni nú í málinu af miklum krafti því að eftir því sem menn kynna sér málið betur tel ég þá verða mun jákvæðari fyrir því að við festum þetta í lög, að afurðastöðvar í kjötiðnaði verði undanþegnar samkeppnislögum.