150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni fyrir ræðuna sem var flutt og fagna málinu. Mál þetta er skemmtilega keimlíkt máli sem sá er hér stendur flutti í september 2017. Textinn er nánast eins upp úr því ágæta máli. Það innihélt reyndar aðra grein sem var til að bregðast við ástandinu á þeim tíma en það breytir því ekki, hver sem kom fyrst fram með málið, að málið er gott. Ég tel að drífa eigi í því að samþykkja það á þinginu því að mjög mikilvægt er að landbúnaðurinn, ein mikilvægasta grein okkar Íslendinga, sitji við svipað borð eða svipaðar aðstæður, við skulum orða það þannig, að geta keppt við innflutning. Íslenskur landbúnaður í dag stendur höllum fæti gagnvart innflutningnum, ekki gæðalega, ekki vegna þess að varan sé verri, hún er miklu betri, þ.e. íslenska framleiðslan, heldur vegna þess að okkur er boðið upp á vörur sem eru framleiddar í stórum verksmiðjubúum í Evrópu eða annars staðar, við vitum varla hvaðan þær koma í rauninni, sem eru framleiddar við aðstæður þar sem hagkvæmnin ræður ríkjum. Við framleiðum landbúnaðarvörur okkar á tiltölulega smáum búum, örsmáum í rauninni miðað við mörg erlend bú. Þess vegna getum við boðið upp á heilnæmari, hollari og betri vörur. Við þurfum hins vegar að horfa á þá staðreynd að afurðastöðvarnar eru einnig pínulitlar í samanburði við svipaðar framleiðslueiningar eða afurðastöðvar erlendis, örsmáar, og þótt þær yrðu allar sameinaðar yrðu þær áfram örsmáar. Þetta er umhverfi sem verður að laga.

Hv. þingmaður, flutningsmaður málsins, minntist á það í ágætri ræðu hversu gríðarleg breyting varð á starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins þegar samstarfið varð heimilt þar. Ætla má að ef það hefði ekki verið gert væri staða bænda og afurðastöðva miklu verri en hún er í dag. Vöruframboðið væri án efa miklu minna en er í dag. Það sem hefur gerst er það að með hagkvæmni og hagræðingu hefur tekist að búa þannig um hnútana að við búum við þann lúxus, ætla ég mér að segja, að vöruúrvalið er fjölbreytt og gæðin eru með afbrigðum góð. Þess vegna þurfum við að heimila ákveðið samstarf í kjötiðnaðinum líka til að ná fram einhverri hagræðingu, klárlega, til að ná fram stöðugu vöruframboði.

Ákveðnar skyldur fylgja því að sjálfsögðu að starfa saman. Mjólkuriðnaðurinn lifir ekki í einhverju tómarúmi. Hann þarf að uppfylla ákveðnar skyldur sem eru að mörgu leyti mjög strangar varðandi vöruframboð og verð. Ekki er frjáls verðlagning á öllum afurðum, svo dæmi sé tekið. Það er verðlagsnefnd — sem maður saknar svolítið að ekki sé búið að skipa í, við komum kannski að því síðar, skipa átti í hana 1. júlí, en ráðherra hefur ekki enn klárað það og þar af leiðandi hefur ekki verið staðið við og þau lög virt sem um það gilda. Maður veltir fyrir sér hvers vegna ekki hefur verið skipað í verðlagsnefnd búvara. Þetta er nefnd sem ákveður verð á ákveðnum landbúnaðarafurðum og vörum. Það er m.a. vegna þess sem kerfið var sett upp þannig að það þyrfti, að mönnum fannst, að gæta þess að ákveðið magn af vörum yrði alltaf til og ákveðið verð yrði að gilda o.s.frv. Bændur, framleiðendur eða afurðastöðvar kvarta ekki undan því að taka á sig ákveðnar skyldur. En við þurfum hins vegar að hafa umhverfið þannig að vöruframboð sé gott, það sé stöðugt og gæðin séu mikil og verð sanngjarnt.

En það sem kemur líka út úr þessu, ef hagræðingin nær fram að ganga og verður skynsamleg, er að hagræðingin þarf ekki að leiða til þess að bændum fækki. Hún getur leitt til þess að þær krónur sem bændur fá fyrir afurðir sínar verði meiri, meira verði eftir í vasanum hjá bóndanum. Ef saga mjólkuriðnaðar er skoðuð hygg ég að það hafi einmitt leitt til þess að kúabændur eru sterkari í dag en þeir voru fyrir nokkrum árum, auðvitað hefur þeim fækkað. Það er eins og gengur í öllum atvinnugreinum. Tækniframfarir og kynslóðaskipti verða til þess að markaður eða framleiðslueiningar breytast. Það eru færri kúabú en stærri og þau framleiða meira. Það er eitthvað sem í sjálfu sér er bara eðlileg þróun. Kjötiðnaðurinn á að búa við sams konar umhverfi og mjólkuriðnaðurinn, að mínu viti.

Ég vil nota tækifærið og nefna hvort ekki sé vel þess virði að velta fyrir sér hvort ekki þurfi líka að skoða samkeppnislög í ljósi þess að Samkeppniseftirlitið virðist algerlega hunsa vilja Alþingis þegar kemur að mjólkuriðnaðinum. Hvað eftir annað höfum við séð þá stofnun gera allt sem hún getur til að brjóta niður það fyrirkomulag sem Alþingi samþykkti að hafa um þennan iðnað, að hafa um þá matvælaframleiðslu, sem Alþingi taldi nauðsynlegt að yrði á þennan hátt til að neytendur fengju góða vöru, stöðugt framboð á sanngjörnu verði og að framleiðendur, bæði bændur og afurðastöðvar, gætu búið við þokkalegt umhverfi, við skulum orða það þannig.

Þetta samstarf hefur líka orðið til þess að vöruframboð hefur stóraukist, nýsköpun er heilmikil í mjólkuriðnaði. Ég leyfi mér að nefna fyrirtækið Heilsuprótein í Skagafirði, þaðan sem ég á ættir mínar að rekja og fjölskylda mín hefur búið. Þar eru menn í risastóru umhverfismáli að nýta afurðir sem hingað til hafa runnið í sjóinn og framleiða próteinduft og etanól. Menn væru ekkert að þessu ef ekki væri fyrir það að þeir geta starfað saman. Hægt er að sækja hráefnið víðs vegar að af landinu og það unnið og nýtt þarna. Svona mætti áfram telja. Ég held að það umhverfi sem við búum að atvinnugreininni þurfi að vera með þessum hætti.

Svo ég komi aftur að Samkeppniseftirlitinu er það einfaldlega þannig, alveg sama hvað stofnunin heitir, hún hlýtur að þurfa að virða vilja löggjafans. Það hefur hún ekki gert í þessu tilfelli. Ég tel því einsýnt að skoða þurfi lög um Samkeppniseftirlitið líka til að skerpa hreinlega á og skýra hverju sú ágæta stofnun á að sinna og hverju ekki þegar kemur að landbúnaðarmálum.

Virðulegur forseti. Ég vona að málið fái framgang á þingi og verði samþykkt sem allra fyrst.