150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma hingað upp og þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir prýðisgóða ræðu. Mér fannst hann einmitt fara að kjarna málsins. Ég tek undir með þingmanni að ég virði þá hv. þingmenn sem eru flutningsmenn að þessu máli, því að tilgangurinn er göfugur, að reyna að ýta undir möguleika og tækifæri bænda til að fá meira fyrir afurðirnar, til að festa sig betur í sessi í því annars erfiða umhverfi sem sauðfjárræktin er. En ég er sannfærð um það, líkt og hv. þingmaður, að þetta er ekki leiðin til þess. Þess vegna er það hárrétt, sem þingmaðurinn segir, að við í atvinnuveganefnd verðum að spyrja hvernig þetta frumvarp muni á endanum skila bændum hagfelldara umhverfi en nú er, hvaða ábata það muni skila bændum. Og síðari spurningin snýr náttúrlega að neytendum.

Ég get líka tekið undir það með hv. þingmanni að endurskoða þurfi margt í samkeppnislögum og fara heildstætt yfir þau. En það má ekki gera á grunni þess að við ætlum að taka þær undanþágur sem til að mynda Mjólkursamsalan hefur núna — hún hefur komið sér upp algerri einokunaraðstöðu á mjólkurmarkaði — og gera þær að almennri reglu. Ég held að meginreglan eigi að gilda um allar atvinnugreinar á Íslandi, grundvallaratvinnugreinar eins og landbúnað og aðrar atvinnugreinar, og það er mín spurning hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér í því að almenn samkeppnislög gildi um þær greinar eins og aðrar.

Við getum síðan tekið upp stuðning og stuðningskerfi við bændur á öðrum vettvangi og ég tel að hægt sé að gera miklu betur í búvörusamningi. Við í Viðreisn höfum til að mynda aldrei útilokað að efla stuðning við bændur, svo lengi sem tekinn verði upp markvissari stuðningur en nú er. Núverandi stuðningur festir bændur í ákveðinni gildru, í sumum tilfellum í fátæktargildru, en eykur ekki við möguleika þeirra til að geta athafnað sig í annars ágætu umhverfi.