150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Um það verður ekki deilt að þær undanþágur sem mjólkuriðnaðurinn hefur frá samkeppnislögum — við getum haft skoðun á því hvort þær eigi að vera eða ekki — hafa skilað þeim árangri að engin atvinnugrein á Íslandi hefur skilað meiri framleiðniaukningu á undanförnum 10–15 árum en mjólkuriðnaðurinn, bændurnir og afurðastöðvarnar. Það verður auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því. Það verður heldur ekki hægt að horfa fram hjá því að við höfum séð nýtt fyrirtæki, Örnu á Vestfjörðum, hasla sér völl með svo glæsilegum hætti að 40% landsmanna segjast kaupa vörur þess. Mér finnst það alveg ótrúlegur árangur, þrátt fyrir yfirburðastöðu MS. Þetta eru staðreyndir sem við þurfum að hafa í huga.

Það sem ég er hins vegar að segja er að við endurskoðun samkeppnislaga finnst mér rétt að setja sérstakan kafla inn í samkeppnislögin um það samkeppnisumhverfi sem við teljum rétt og eðlilegt að gildi um íslenskan landbúnað. Það eru rök fyrir því, þó ekki séu nema þjóðaröryggisrök, (Gripið fram í.) matvælaöryggisrök, að það gildi kannski ekki alveg nákvæmlega sömu hörðu samkeppnisreglurnar um landbúnað og önnur svið. Þetta er umræða sem við eigum að taka. Það er nauðsynlegt að við áttum okkur á því að það eru kostir og gallar við að hafa undanþágur eins og í mjólkinni. (Forseti hringir.) Í mínum huga væri betra að þetta væri með skýrum hætti inni í samkeppnislögunum.