150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta fer að verða athyglisvert og þetta verður að komast á hreint. Skil ég hv. þingmann rétt, að hann styðji núverandi fyrirkomulag um undanþágu frá almennum samkeppnisreglum á mjólkurmarkaði eða ekki? Styður hann núverandi fyrirkomulag á mjólkurmarkaði? Ég vil minna hv. þingmann á að ýmislegt hefur verið ályktað um það á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, m.a. af því að almenn samkeppnislög gilda, líka um landbúnaðinn, hér á landi. Ég skynja að ætlunin sé að breyta samkeppnisreglum þannig að hægt sé að rökstyðja að fákeppni verði hér á landi og hún falli ekki undir almennar samkeppnisreglur ef við breytum samkeppnislögum.

Nú taka að renna á mig tvær grímur. Ég vil fá alveg skýrt svar frá hv. þingmanni. Skildi ég hann rétt? Styður hann það að miðað við óbreytta löggjöf, miðað við óbreytt ástand, eigi Mjólkursamsalan og undanþágur hennar áfram að vera við lýði í íslensku umhverfi? Er hann á þeirri skoðun að við eigum ekki að breyta neinu þegar að þessu kemur, að við heimilum að fyrirkomulagið verði áfram eins og við upplifum það? Þrátt fyrir að sjáum öflugt fyrirtæki eins og Örnu á engu að síður eitt fyrirtæki að hafa algera einokunarstöðu á markaði? Það er ekki í þágu bænda. Það er ekki í þágu neytenda. Það fyrirkomulag þarf að stokka upp alveg eins og við þurfum að fara í ákveðna uppstokkun á fyrirkomulagi sauðfjárbænda og gera það hagfelldara þannig að bændur sjálfir séu frjálsari frá þessu kerfi einokunar sem ég vona að hv. þingmaður styðji ekki til lengri tíma. (Forseti hringir.) Ég vona að ég fái það á hreint að hann sé sammála mér um að almennar samkeppnisreglur eigi að gilda, reglur sem ýti ekki undir fákeppni.