150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið frá hv. þingmanni. Þriðjudeildarleikmaður? Ég get ekki tekið undir það. Við getum kannski frekar talað um „in caso“ eða eitthvað svoleiðis. En að öllu gamni slepptu var aðeins rætt áðan um Örnu í Bolungarvík. Hv. þingmaður kom einnig inn á það í ræðu sinni að við ættum bara að fjölga afurðastöðvum í kjöti. Ég skildi það þannig. Síðan tók hann til hliðsjónar Örnu í Bolungarvík. Svona til fróðleiks inn í umræðuna um Örnu í Bolungarvík er samningur þar á milli hins litla við hinn stóra, sem í þessu tilfelli er Mjólkursamsalan, samningur sem snýr að flutningi á hrávöru, frá bændum í afurðastöð, og einnig er samningur, að ég best veit, á milli Örnu og Mjólkursamsölunnar þess efnis að það hráefni sem ekki nýtist Örnu í hennar framleiðslu taki Mjólkursamsalan til sín. Þannig að allt tal um að sá stóri sé að sparka í þann litla o.s.frv. á ekki við rök að styðjast. Ég hef trú á því — og ég trúi því þangað til ég sé eitthvað annað sem hönd á festir hvað rök varðar — að nákvæmlega hið sama geti gengið í afurðastöðvum í kjötiðnaði þegar við speglum þær yfir á Mjólkursamsöluna. Nákvæmlega hið sama á að geta komið í ljós, þ.e. að hagur bænda vænkist og hagur neytenda einnig.