150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:52]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Við eigum alveg samleið. Við erum sammála um markmiðið. Við erum algerlega sammála um markmiðið. Markmiðið er í mínum huga tvíþætt og ég hygg að hv. þingmaður hafi verið þar líka. Annars vegar þurfum við að styrkja stöðu bænda, gera þá að raunverulegum sjálfstæðum atvinnurekendum, eins og ég hef oftar en einu sinni vikið að í þessum ræðustól, vegna þess að bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur og þeir eiga að njóta þeirrar stöðu sem því fylgir og við eigum að byggja undir þá fjárhagslega, gera þeim kleift að stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, sem er búrekstur í þessu tilfelli. Síðan er hitt markmiðið að sinna þörfum neytenda, tryggja þeim hágæðavöru á eins lágu og hagstæðu verði og hægt er. Þetta eru markmiðin. Ég segi: Þetta frumvarp nær ekki þeim markmiðum, hvorugu markmiðanna, hvorki að styrkja bændur eða fjárhagsstöðu þeirra né að huga að hagsmunum neytenda.

Ég hef örugglega talað óskýrt eða gefið í skyn að ég teldi að það eigi að fjölga afurðastöðvum í kjötiðnaðinn. Það er ekki það sem ég á við. Ég held að vísu að hvorki ég né hv. þingmaður og flutningsmaður getum fullyrt hver sé hagkvæmasti fjöldi afurðastöðva. Ég er bara að segja að versta niðurstaðan fyrir okkur öll er að við hefjum þá vegferð að hugsanlega þróist mál þannig að hér verði í rauninni einungis ein afurðastöð. Það er versta niðurstaða málsins og það er það sem ég óttast ef frumvarp af þessu tagi nær fram að ganga. Þess vegna þarf hv. atvinnuveganefnd að vanda mjög til verka. En markmiðin eru skýr og um þau erum við sammála.