150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[15:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð umræða. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan og mér fannst hún prýðisgóð. En síðan vildi svo til að hv. þingmaður fór eiginlega í andsvör við sjálfan sig og reif í sjálfu sér niður það sem hann hafði verið að tala um í ræðunni. Samanlögð áhrif af ræðunni og andsvörunum eru þau að ég er ögn ruglaðri en ég var áður en hv. þingmaður hóf upp raust sína, en það er ekki honum að kenna, það er líklega ég.

En tvennt þótti mér stangast á í málflutningi hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Hann benti á að frá því að mjólkurframleiðsla á Íslandi og mjólkurdreifing færðist sem mest á eina hendi — að vísu er söfnunin í sérfélagi sem heitir Auðhumla, það er annað mál — hefði staða mjólkurbænda yfir höfuð, sjálfsagt með einhverjum undantekningum, batnað mikið. Enginn maður hefur í mín eyru lýst áhrifum og ávinningi þess að taka mjólkuriðnaðinn undan samkeppnislögum betur en Ögmundur Jónasson, hv. fyrrverandi þingmaður. Hann sagði í ræðu að með hagræðingunni spöruðust — ég held að ég muni hlutföllin rétt — 3 milljarðar á ári. Tveir fyrir neytendur og einn fyrir bændur. Hann orðaði þetta einfaldlega svo.

Ef við gætum séð fram á eitthvað svipað í t.d. sauðfjárafurðum held ég að við gætum vel við unað. Svo vill til að sá sem hér stendur er gamall sláturhússrekandi og mér er því málið nokkuð skylt. Ég hef reyndar aldrei á ævi minni fengið fyrir nokkurn mun skilið hvers vegna mönnum gengur erfiðlega að selja íslenskt lambakjöt, hvort sem er innan lands eða utan lands. Ekki er einungis erfitt fyrir okkur að flytja út — og það er ekki af engu, í stórum sauðfjárframleiðslulöndum eins og Nýja-Sjálandi hefur neysla innan lands dregist saman um tvo þriðju til þrjá fjórðu sem þýðir náttúrlega aukinn þrýsting á útflutning þaðan, aukna samkeppni — heldur er margt sem truflar í þessum efnum. Það er nú svo að afurðastöðvar sem sýsla með sauðfjárafurðir eru flestar í eigu bænda. Samt virðast afurðastöðvarnar stundum vera verstu óvinir bænda. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það vegna þess að fyrir líklega þremur árum þegar verð til bænda var tekið niður um 30% á einu bretti, ef ég man rétt — og ég held að mörgum launamanninum á Íslandi brygði við ef hann sæi allt í einu á launaseðli sínum fyrir septembermánuð að launin væru 30% lægri en í ágúst — lá lengi vel ekki fyrir hvert þeir peningar fóru. Síðan kom það í ljós: Þessi 30% runnu til afurðastöðvanna.

Ég hef ákveðna samúð með þessu frumvarpi, enda væri það nú annað hvort þar sem það kemur eiginlega úr smiðju Miðflokksmanna að meiri hluta til og væri í sjálfu sér slæmt að gangast ekki við því. Hins vegar gengur það nokkuð stutt, finnst mér. Inn í frumvarpið og/eða afleiður þess vantar t.d. kafla um nauðsyn á upprunamerkingum. Að steypa saman öllum afurðastöðvum í einn pott er auðvelt í mjólk, við kaupum einn lítra af mjólk og hann er u.þ.b. alveg eins, sama hvaðan hann kemur. Það er hins vegar annað með lambakjöt. Þeir sem kunna að meta það vilja gjarnan vita hvaðan það kemur og það er ekki alls staðar eins. Þess vegna á að verðlauna þá bændur sem ná góðum árangri með því að gera fólki kleift að vita hvaðan varan er. Á sama hátt eru, ef ég man rétt, nálægt 30 mismunandi flokkanir á lambakjöti. En ef ég fer út í búð til að kaupa læri get ég ekki valið úr 30 flokkum af lambalærum, síður en svo. Mér er eiginlega skammtað, ég get ekki valið holdfyllt eða feitt. Mér er bara skammtað eitt læri í plastumbúðum. Reyndar er mikil framför frá því að kjöt var sagað niður og hent í byggingarplasti ofan í frystikistu og síðan voru menn að gramsa í því næstu sex, sjö mánuði á eftir uns það var orðið grátt. Ég vonast náttúrlega til að það sé liðin tíð. En inn í þetta vantar þann kafla, eins og ég segi, að markaðsendinn sé tryggður og vöruþróunin. Það er svo merkilegt að það þurfti erlent fyrirtæki að koma hingað til Íslands til að menn lærðu að skera kótelettur þykkar. Ótrúlegt en satt. Breskir slátrarar þurftu að koma til Íslands til að kenna mönnum að saga kótelettur. Það eru vandræði þegar verið er að flytja út lambahryggi til Ameríku, menn geta ekki talið rifin rétt þannig að lambahryggirnir eru aldrei eins. Markaðssetningu og vöruþróun er mjög ábótavant í afurðastöðvum.

En síðan kom hér fram, t.d. í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar, að endurskoða þyrfti samkeppnislögin. Þar erum við hv. þm. Óli Björn Kárason hjartanlega sammála. Það getur heldur ekki verið eðlilegt að í smásöludreifingu, þar sem þetta kjöt endar að miklum hluta til, eru 60% markaðshlutdeildar á einni hendi. Það er ekki nóg með það. Samkvæmt nýlegu dæmi, bara fyrir mánuði eða svo, virðist sem samtökum kaupmanna sé beinlínis í nöp við bændur. Hvað reyndu þau að gera fyrir fjórum eða sex vikum? Jú, þau voru til í að flytja inn tveggja eða þriggja ára gamla hryggi þvert yfir heiminn til að selja á einhverju dömpi því að þau héldu að kótelettur vantaði á Íslandi, sem var misskilningur.

En þetta helgast líka af birgðahaldi í sauðfjárafurðum. Það hef ég gagnrýnt og lagði reyndar fram fyrirspurn í fyrra en fékk ekkert svar frá hæstv. ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar. Það var ekki klárt hvað var til af hvaða skrokkhluta á hverjum tíma í gegnum söluárið. Hvernig ætla menn að reka markaðsstarfsemi ef þeir vita ekki hvað er til af hverri vöru? Hvernig í ósköpunum? Þrátt fyrir að þetta frumvarp sé að því leyti til góðra gjalda vert, að reyna að leita að hagræðingunni sem við þekkjum úr mjólkinni, vantar stórlega upp á að menn sjái heildarmyndina, finnst mér. Vegna þess að vöruþróun og markaðsmál hljóta að vera það sem ræður úrslitum. Það er nú eitt sem ég hef fundið að bæði í ræðu og riti að þau ráð sem markaðsöfl í sauðfjársölu hafa leitað felast í að leita eftir mörkuðum sem eru eins langt í burtu og hægt er, Kína, Rússland, en þau sinna ekki heimamarkaðnum. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Í þinginu í dag var, svo alþjóð viti, lambakjöt í matinn. Ég vænti þess að það verði aftur eftir átta vikur. Af hverju koma ekki sölumenn Bændasamtakanna hingað og banka upp á í mötuneyti þingsins og gera mönnum tilboð um að hér verði lambakjöt á boðstólum einu sinni í viku? Þetta er svona líka í mötuneyti Stjórnarráðs Íslands, þar sem ég þekki þokkalega til. Hvers vegna fara menn ekki í alvörumarkaðssókn á innanlandsmarkaði? Hvers vegna þurfa menn til Kína þegar markaðurinn er galopinn hér innan lands? Þetta er markaður sem var einu sinni 50 kíló á mann á ári, ef ég man rétt, og er núna kominn niður í líklega 24. Þarna er verk að vinna. Við þurfum ekki að sækja vatnið yfir lækinn við að selja þetta kjöt, við getum selt það hér heima, hreinlega með markvissum aðgerðum. Það er náttúrlega sérstakt afrek, eins og ég hef sagt áður, að geta ekki selt lambakjöt. Menn eiga að fá mynd af sér í Mogganum, á forsíðuna: Þetta eru mennirnir sem geta ekki selt lambakjöt. Þetta er þannig afurð að það ætti ekki að vera nokkurt einasta mál að afsetja hana með þokkalegu markaðsstarfi og góðri kynningu.

Ég held að þessi vandi sé víðtækari en svo að þetta frumvarp geti leyst hann. Nú veit ég svo sem ekki hvort flutningsmenn dreymdi um að geta leyst öll vandamál landbúnaðarins með því að leggja það fram og ég er ekkert viss um það. En það þarf töluvert miklu meira til.

Framlagningþessa frumvarps er samt góð að því leyti til að við fáum umræðu, sérstaklega um stöðu sauðfjárbænda. Svo vill til að umræða um landbúnað á Íslandi, sérstaklega sauðfjárrækt, einkennist yfirleitt af þvílíkri vanþekkingu og skilningsleysi og allt að því andúð að eiginlega er ekki hægt að taka þátt í henni. Hverjir sitja alltaf uppi með Svarta-Pétur í þeirri umræðu? Það eru ekki neytendur, þó að þeir fái takmarkað vöruúrval. Það eru ekki kaupmenn, þeir fá sitt. Afurðastöðvarnar eru búnar að fá sitt með því að skera niður. Jú, það eru bændurnir. Ég held að fróðlegt væri — og nú ætla ég að segja það úr þessum ræðustól, því að ég hef sagt það svo oft við framámenn Bændasamtakanna, þá sem stjórna markaðsmálum sauðfjárafurða: Af hverju birta menn ekki mynd í Mogganum af einu lambalæri og sýna hreinlega hvernig hagurinn af því skiptist milli bænda, afurðastöðvanna, kaupmanna og ríkissjóðs sem fær vask af sölu þess? Hvers vegna gera menn þetta ekki? Hvers vegna sýna menn ekki almenningi hvernig verðmyndun á því sem við kaupum út úr búð er háttað? Ég efast ekki um að myndræn framsetning af því tagi myndi auka skilning og opna augu manna fyrir því hvernig virðiskeðjan í þessu efni er. Ég held að það væri þarft fyrir okkur, og ekki bara með þessa vöru, ef við vissum innkaupsverð hverrar vöru, vissum hvernig meðalálagning er bæði á heildsölu- og smásölustigi á Íslandi — sem oft er á einni hendi. Að við fengjum að sjá hvernig verðmyndunin er á almennri vöru á Íslandi.

Ég segi því aftur: Þetta frumvarp er góðra gjalda vert, enda náskylt mér. En það hefði þurft að vera dýpra og hugsanlega getur nefndin sem fær frumvarpið til meðferðar tekið málið og bætt inn í það sem upp á vantar. Ég treysti eiginlega á að það gerist vegna þess að það er alveg hárrétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan, að við þurfum að vita hvaða áhrif samþykkt frumvarpsins hefur annars vegar á bændur og hins vegar á neytendur. Það er alveg rétt, það er lykilspurning, en við höfum dæmin fyrir okkur. Við vitum hvað gerðist í mjólkinni. Við vitum hvað gerðist þegar stjórnendur MS sáu ljósið og sáu í gegnum fingur sér við lítið fyrirtæki vestur á fjörðum sem framleiðir allt öðruvísi vöru en þeir. Hvað gerðist? Það græddu náttúrlega allir, neytendur, bæði framleiðslufyrirtækin, allir. Nákvæmlega það sama gerist í þessu hér. Við megum heldur ekki gleyma að það er einn hlekkur í þessari keðju líka sem ég hef ekki minnst á. Það eru ótal margar litlar kjötvinnslur á Íslandi sem framleiða öndvegisvöru, gera það gott og skapa betri vöru fyrir neytendur.

Ég legg til að menn fari gaumgæfilega yfir málið í nefndinni, vinni á því nokkrar endurbætur. En að því loknu held ég að það væri alveg hægt að samþykkja frumvarpið og að það gæti verið til góðs.