150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Vissulega voru á þessum tíma birgðir umfram eðlilega birgðastöðu. Birgðir eru ekki mældar í lungum og lifur eða innmat eða sviðahausum. Þær miðast við lambaskrokka og það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það var svo sem ekki vitað hvort það væru læri, hryggir eða hvað sem var, en birgðirnar voru vissulega of miklar á þeim tíma og ég fór, tel ég, ágætlega yfir ástæðurnar fyrir þeirri verðlækkun sem þá varð. Það voru margir þættir sem komu þar inn.

Varðandi stöðuna sem uppi er í dag, þá fækkun sem hefur orðið og þá umfjöllun sem varð síðastliðið sumar um lambahryggina og þess háttar þá má heldur ekki gleyma því að farið var í aðgerðir á vegum bænda og ríkisins þar sem flýtt var endurskoðun á búvörusamningunum til þess að takast á við þann byggðavanda sem var. En það sem gerðist var að bændur náðu að regúlera framleiðsluna á alveg ótrúlega skömmum tíma. Því miður er staðan þannig núna að ég óttast verulega að of mikil fækkun hafi orðið á sauðfé í landinu.