150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[16:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að taka aftur áhættuna á því að vera sammála í andsvari. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég tek undir það með honum að bændur eiga aðdáun skilið fyrir að hafa breytt framleiðslunni eins og þeir gerðu á þessum stutta tíma. Það er alveg rétt. Ég segi aftur, af því að nú erum við orðnir knappir og það tekur sirka tvö ár að leiðrétta það: Þetta krefst þess að aðgerðir sem gripið er til séu reistar á þokkalegum grunni. Þá segi ég aftur að það er alltaf sami aðilinn sem situr uppi með Svarta-Pétur í þessu máli og það eru bændur. Á hverjum tíma geta komið upp aðstæður eins og í sumar, meira að segja á misskilningi byggðar, þegar menn ætluðu að fara að hella eldgömlu kjöti inn á markaðinn, algerlega að óþörfu. Það er þetta sem við þurfum að koma í veg fyrir. Það er þetta sem ég hræðist svolítið. Ég er alveg sammála þingmanninum um að auðvitað er æskilegra að það séu þrjár, fjórar, fimm stöðvar sem séu í sambandi heldur en ein stór. Ég er algerlega sammála því. Það breytir ekki því að menn þurfa að vanda sig miklu meira en þeir hafa gert. Ef þetta frumvarp er skref í því að menn vandi sig meira en þeir hafa gert er það náttúrlega alveg ótrúlega gott og ég gleðst yfir því.

Það er eitt hins vegar sem mér fannst vanta í andsvar þingmannsins og ég spyr hann því: Akkúrat á þessum tíma, þegar það varð 30% niðurskurður í verði til bænda, var ekki farið út í eitt einasta markaðsátak innan lands, t.d. í skrokkhlutum sem ganga síður út. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum ekki. Ég er alveg viss um að menn hefðu leiðrétt þetta mál miklu fyrr og miklu farsælar ef þeir hefðu gripið til slíkra aðgerða. Það þarf greinilega einhver vakning að verða.