150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

búvörulög.

12. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir spurningarnar. Ég ætla að byrja á að koma með eina leiðréttingu í upphafi. Það er ekki rétt að ekki hafi verið farið í markaðsátak innan lands þegar þetta gerðist. Ég fór áðan yfir Icelandic Lamb og erlendu ferðamennina. Það var hluti af því verkefni sem farið var í. Auk þess var farið í verkefni erlendis sem við getum heimfært yfir á Þýskaland, verkefni sem kallast Viking IR sem var í umræðunni varðandi heimsmeistaramót hestamanna. Við byrjuðum á því þá líka. Hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég að vinna við markaðssetningu er langhlaup, hún gerist ekki einn, tveir og tíu.

Varðandi spekúlasjónir um innanlandsframleiðslu og það magn sem til er í landinu: Erum við komin of neðarlega? Það má vel vera en ef þetta frumvarp nær fram að ganga óttast ég ekki að það verði einhver skortsala á innanlandsmarkaði vegna þess að þá verður hér heilbrigð birgðastýring á markaði. Ef við höfum ekki heilbrigða birgðastýringu og heilbrigt samstarf milli sláturleyfishafa getur gerst nákvæmlega það sama. Segjum sem svo að það opnist mjög vel borgandi markaður, bara einn, tveir og bingó, úti í löndum. Hvað gerist þá? Þá þarftu að selja allt lambakjötið í einum grænum og við verðum lambakjötslaus hér á landi strax.