150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir afskaplega jákvæðu og mikilvægu máli sem á sér alllanga sögu en það er tillaga til þingsályktunar um einföldun regluverks, mál sem mun hafa, verði það samþykkt og innleitt í samræmi við það, alveg gríðarlega mikil og jákvæð áhrif á t.d. byggðamál, á atvinnumál, hvort sem það er landbúnaður, iðnaður, ferðaþjónusta, sjávarútvegur eða annað, á lífskjör fólks í landinu og lífsgæði þess almennt, á verðmætasköpun á Íslandi, á tekjur og rekstur ríkisins, á samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum löndum, meira að segja á húsnæðismál, heilbrigðismál og þannig mætti lengi telja. Þetta er mál sem getur haft mjög umfangsmikil og jákvæð áhrif á flestum sviðum samfélagsins og þetta er aðkallandi mál eins og ég mun rekja á eftir.

Tillagan er flutt af öllum hv. þingmönnum Miðflokksins og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin geri tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Við vinnuna verði miðað við að uppfylla að minnsta kosti markmið stöðuskýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks frá september 2014 og sértækar jafnt sem almennar aðgerðir útlistaðar og tímasettar. Forsætisráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á vorþingi 2020.“

Eins og þarna er nefnt byggir þetta á heilmikilli undirbúningsvinnu sem var búin að fara fram við að ná hina mikilvæga markmiði um einföldun regluverks, ekki hvað síst skýrslunni sem við gáfum út í forsætisráðuneytinu í september 2014 og lagt er til að verði höfð til hliðsjónar þannig að sú góða vinna sem farið var í á sínum tíma nýtist og menn bæti við hana eftir þörfum.

Þá að greinargerðinni. Hún hljómar svo, herra forseti:

„Umræðan um óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk og þörfina á einföldun þess er ekki ný af nálinni heldur hefur vandinn lengi legið ljós fyrir. Sem dæmi má nefna að 30. mars 1999 tóku gildi lög um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999, en í upphafsorðum greinargerðar frumvarpsins sem varð að þeim lögum sagði:

„Undanfarin ár hefur komið í ljós að ofvöxtur er víða hlaupinn í reglugerðir og eftirlitsumfang opinberra aðila í iðnvæddum ríkjum. Regluverk eru sums staðar orðin svo flókin og viðamikil að fyrirtæki og einstaklingar eiga erfitt með að fylgjast með réttarstöðu sinni. Jafnframt hafa strangar hömlur af ýmsu tagi leitt til hægari nýsköpunar og atvinnustarfsemi og þannig haft neikvæð áhrif á hagvöxt og lífskjör.““

Þetta var fyrir 20 árum, herra forseti, og ekki hefur ástandið batnað síðan. Ég held áfram með greinargerðina:

„Þrátt fyrir markmið laganna um að sporna við þeirri þróun sem þarna er lýst verður ekki um það villst að reglubyrði atvinnulífsins og flækjustig regluverksins í heild hefur margfaldast frá setningu þeirra fyrir tveimur áratugum. Talsverður hluti þeirrar auknu reglubyrði er kominn til vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skyldubundinnar innleiðingar reglna vegna þátttöku landsins í innri markaði Evrópusambandsins. Því verður hins vegar ekki einu um kennt og má nefna að hagsmunaaðilar á vinnumarkaði hafa á undanförnum árum verið iðnir við að benda á að stjórnvöld innleiði EES-gerðir með meira íþyngjandi hætti fyrir almenning og atvinnulíf í landinu en nauðsynlegt er. Stjórnvöld nýti ekki það svigrúm sem bjóðist til að létta reglubyrði heldur hneigist þvert á móti til að bæta við séríslenskum reglum sem íþyngi atvinnulífinu og veiki samkeppnisstöðu þess á alþjóðamarkaði.“

Það er ekki aðeins atvinnulífið sem þarf að fást við þetta því að allt þetta mikla regluverk og eftirlit hefur áhrif á líf hvers manns í þessu landi.

Næst segir í greinargerð undir fyrirsögninni Stefna stjórnvalda:

„Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013 var að finna sérstaka áherslu á einföldun regluverks og tekið fram að sérstakt markmið væri að engar nýjar íþyngjandi reglur yrðu innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið féllu brott jafn veigamiklar kvaðir. Þannig myndu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt. Í september 2014 gaf forsætisráðuneytið út Handbók um einföldun regluverks.

Ég er með eintak hér, herra forseti, ef einhver vill kynna sér það. Það liggur sem sagt fyrir handbók sem við gáfum út strax árið 2014 um einföldun regluverks sem vonir stóðu til að stjórnsýslan og stofnanir ríkisins myndu nýta sér.

Þessi handbók „var hluti af aðgerðaáætlun þáverandi ríkisstjórnar um málefnið og var ætlað að leiðbeina stjórnvöldum við skipulega einföldun á sínu sviði. Í sama mánuði kom út stöðuskýrsla ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur sem lagt er til að höfð verði til hliðsjónar við mótun áætlunar samkvæmt þessari tillögu“ eins og ég gat um áðan.

„Undanfarin ár virðist hafa dregið úr áherslu stjórnvalda á einföldun regluverks. Þannig var í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar ekki minnst á málefnið. Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar segir að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings án þess þó að nánar sé útskýrt hvað í því felist. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 150. löggjafarþing, sem telur ríflega 160 lagafrumvörp og um 30 þingsályktunartillögur, er að finna þrjú frumvörp sem sérstaklega er ætlað að einfalda regluverk, tvö á sviði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og eitt á sviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í lýsingu á síðasttalda frumvarpinu kemur fram að það sé fyrsti áfangi í aðgerðaáætlun um einföldun regluverks á málefnasviði ráðherrans. Þessi viðleitni er af hinu góða. Skili hún árangri í þá átt sem lagt er upp með í þessari tillögu hvetja flutningsmenn til að aðgerðaáætlun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði öðrum ráðherrum hvatning á sínum málefnasviðum.“

Svo segir undir fyrirsögninni Stöðuskýrsla ráðgjafarnefndarinnar sem er skýrslan sem lögð hefur verið til grundvallar og ég nefndi áðan:

„Líkt og fram hefur komið leggja flutningsmenn til að við gerð aðgerðaáætlunar um einföldun regluverks verði tekið mið af stöðuskýrslu um einföldun gildandi regluverks sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur skilaði af sér og forsætisráðuneytið birti í september 2014. Í 5. kafla skýrslunnar er fjallað um mismunandi aðferðir til að ná fram einföldun og í undirkafla 5.5 er gerð grein fyrir svokallaðri jafnvægisreglu. Vísi að slíkri reglu var að finna í áðurnefndum stjórnarsáttmála frá 2013 þar sem kveðið var á um að ekki skyldi bæta við nýrri íþyngjandi reglu án þess að önnur jafn veigamikil félli brott. Í skýrslu ráðgjafarnefndarinnar er gerð grein fyrir hertri kröfu að þessu leyti, sem ríkisstjórn Breta hafði þá nýverið markað, og gerir ráð fyrir að til þess að ein íþyngjandi regla fái brautargengi þurfi tvær sambærilegar að falla brott.

Flutningsmenn telja nauðsynlegt að jafnvægisregla verði innleidd með skýrum hætti og höfð að leiðarljósi við reglusetningu stjórnvalda. Þá telja flutningsmenn skynsamlegt að krafa verði gerð um að tvær íþyngjandi reglur á tilteknu málefnasviði falli brott við innleiðingu einnar nýrrar á því sviði, a.m.k. tímabundið, og árangurinn af slíkri kröfu metinn. Rétt er að innleiðingar EES-gerða verði undanþegnar þessari reglu að því marki sem innleiðing felur ekki í sér þyngri kvaðir en nauðsynlegt er.“

Ég ætla að undirstrika þetta síðasta, að undanþágan eigi við þegar innleiðing felur ekki í sér þyngri kvaðir en nauðsynlegt er.

Loks er hér fjallað um mikilvægi tímasettrar aðgerðaáætlunar:

„Í þágu framangreindra markmiða um einföldun regluverks til að auka skilvirkni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er í tillögugrein kveðið á um að gerð verði tímasett aðgerðaáætlun. Nauðsynlegt er að útlistaðar verði sértækar aðgerðir, svo sem brottfall tiltekinna reglna eða einföldun á borð við þá að taka upp tilkynningarskyldu í stað leyfisskyldu fyrir ákveðna starfsemi, og þær tímasettar.“

Aðeins um tilkynningarskyldu í stað leyfisskyldu, þetta er eitt af því sem fjallað er um í skýrslunni sem ég nefndi áðan og snýr að því að einfalda fólki að gera eitthvað nýtt, stofna fyrirtæki og hefja verðmætasköpun þannig að á ákveðnum sviðum nægi einfaldlega að tilkynna að menn séu farnir af stað í stað þess að sækja um leyfi fyrir öllu mögulegu frá ríkinu.

„Samhliða sértækum aðgerðum er nauðsynlegt að kveða á um almennar aðgerðir á borð við upptöku jafnvægisreglu líkt og framar greinir. Flutningsmenn leggja til að forsætisráðherra hafi forgöngu um gerð áætlunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og kynni Alþingi áætlunina á komandi vorþingi.“

Eins og ég nefndi strax í upphafi er þetta mál sem gæti, yrði því fylgt vel eftir, haft gríðarlega mikil og jákvæð áhrif, ekki aðeins fyrir atvinnulífið heldur fyrir samfélagið allt. Hafi þetta verið orðið aðkallandi fyrir 20 árum, eins og ég rakti, er það það svo sannarlega núna og full ástæða til að nýta þá góðu vinnu sem farin var af stað og þann undirbúning sem liggur fyrir til að hægt sé að ráðast í þetta eins fljótt og verða má og þar af leiðandi ekki seinna en á vorþingi 2020, eins og ég nefndi áðan.

Á ferðum mínum um landið í sumar skoðaði ég mörg fyrirtæki og hitti margt fólk. Í langflestum tilvikum höfðu menn orð á því, hvort sem þeir ráku fyrirtæki eða voru bara að reyna að lifa lífi sínu, hvað kerfið, báknið, væri orðið íþyngjandi á Íslandi og gerði mönnum erfitt fyrir á öllum mögulegum sviðum. Það var til að mynda nefnt um allt land að þeir sem vildu láta til sín taka, vildu byggja eitthvað upp í sínu byggðarlagi, vildu búa til störf fyrir aðra og skapa ný verðmæti — sem er auðvitað það mikilvægasta í byggðamálum, að menn hafi tækifæri til slíks um allt land — mættu allir hindrunum. Stjórnkerfið, ríkið, var í huga þessa fólks miklu meira að leggja steina í götu þessara þörfu og mikilvægu verkefna en að ryðja þeim leið. Þessu þarf að breyta, snúa við, svoleiðis að ríkið upplifi að það sé í þjónustuhlutverki við almenning í landinu en ekki öfugt. Takist okkur það munum við leysa úr læðingi mikla verðmætasköpun og gera lífið auk þess einfaldara og skemmtilegra fyrir allan almenning.

Ég ætla að nefna eitt dæmi af lyfjaframleiðanda í bæ á Norðurlandi sem sagði okkur að ef til að mynda frumvarp heilbrigðisráðherra um ný lyfjalög, sem til allrar hamingju kláraðist ekki á síðasta þingi, yrði samþykkt óbreytt gæti fyrirtæki hans þar með hætt starfsemi. Því miður er þetta dæmi bara eitt af mörgum um að stjórnvöld, því miður kannski ekki hvað síst þessi ríkisstjórn, eru stöðugt að stækka kerfið og gera lífið erfiðara, flóknara og dýrara fyrir allan almenning.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillagan gangi til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.