150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[16:46]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir ræðuna. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og hlakka til þess verkefnis, sem verður sameiginlegt með öðrum félögum okkar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að fjalla um tillöguna. Við vitum að það hefur legið fyrir að hvergi í ríkjum OECD er reglubyrði, a.m.k. þjónustugreina, þyngri en á Íslandi. Það var a.m.k. niðurstaða OECD sem var kynnt fyrr á þessu ári á fundi sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur hélt í apríl, ef ég man rétt, mars eða apríl. Því miður bendir ekkert til þess að reglubyrðin sé hlutfallslega einfaldari, skulum við segja, í öðrum atvinnugreinum. Eiginlega má fullyrða með nokkurri vissu að almennt sé staðan hér á Íslandi sú að reglubyrði atvinnulífsins sé þyngri en í öðrum OECD-ríkjum.

Þá er spurningin: Skiptir það einhverju máli? Þurfum við að hafa raunverulegar áhyggjur af þessari staðreynd? Já, alveg örugglega, vegna þess að regluverkið, þ.e. umgjörðin sem við búum íslenskum fyrirtækjum, er auðvitað spurning um samkeppnishæfni fyrirtækjanna gagnvart helstu samkeppnislöndum, bæði á útflutningsmarkaði og á innanlandsmarkaði. Það má t.d. nefna landbúnaðinn en einnig fleiri atvinnugreinar, ekki bara þjónustugreinar. Með því að setja íþyngjandi reglur og þyngri skattbyrðar líka, við skulum ekki gleyma þeim, allt spilar þetta hugsanlega saman, a.m.k. umfram það sem almennt gerist í ríkjum sem við berum okkur saman við, er aukin hætta á því að íslensk fyrirtæki og íslenskt launafólk verði hreinlega undir. Þetta er ekki bara spurning um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs heldur spurning um lífskjör almennt. Þess vegna skiptir máli að við tökum tillögu eins og þá sem hér liggur fyrir alvarlega og fjöllum um hana, ekki í hálfkæringi heldur af þeim alvarleika sem nauðsynlegur er.

Hið gleðilega er hins vegar, því að ekki er nú allt svart, að þessi vinna er að hluta til hafin. Það mætti ganga betur undan en menn eru þó byrjaðir. Þessi vegferð er hafin. Bara á síðasta ári tók hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sig til og felldi úr gildi tíu reglugerðir á sviði landbúnaðarmála, henti þeim bara út í hafsauga, og það hefur ekkert gerst annað en að líf íslenskra bænda varð aðeins léttara og einfaldara. Við sjáum líka á þingmálaskrá ráðherra sem liggur fyrir að stefnt er að því, í samræmi við stjórnarsáttmála, að ganga sæmilega rösklega til verka. Hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur boðað að í október verði lagt fram frumvarp um breytingar á samkeppnislögum sem skipta auðvitað máli. Við megum ekki gleyma því að samkeppnislögin eru ekki alveg einföld og þau eru á margan hátt gölluð. Þau eru líka umgjörð um atvinnulífið sem við þurfum að huga að. Þar hef ég ákveðnar skoðanir um hvernig samkeppnislögin eigi að vera úr garði gerð. Við sjáum til og ég hlakka til að fá að takast á við frumvarpið sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur boðað. Hann boðar einnig frumvarp í október um breytingu á ýmsum lögum er varða leyfisveitingar þar sem lagðar verða til breytingar á ýmsum lögum sem snúa að einföldun regluverks og leyfisveitinga, m.a. afnámi iðnaðarleyfis, verslunarleyfis, brottfalli úreltra laga o.s.frv. Hér er hæstv. ráðherra að stíga rétt skref í rétta átt, til að einfalda lífið.

Hið sama á við um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem í október mun leggja fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum um opinbert eftirlit, sem mun m.a. fela í sér að einfalda regluverk sem gildir um matvælakeðjuna, eins og þar segir, auk þess sem breytingunum er ætlað að stuðla að samræmdara og skilvirkara eftirlitskerfi fyrir matvælakeðjuna í heild sinni. Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi verði sameinaðir og að við taki nýr sjóður á breiðari grunni sem heiti Matvælasjóður. Þá er einnig boðað í febrúar á komandi ári frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar þar sem kveðið er á um og gert átak um einfaldara regluverk í þágu atvinnulífsins og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Frumvarpið mun fela í sér breytingar sem miða að því að einfalda regluverk og nema úr gildi lög á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar sem eru úrelt. Hér er því verið að boða ákveðin skref sem falla akkúrat vel að þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað að í janúar leggi hann fram frumvarp sem feli í sér brottfall hátt í 40 lagabálka á verksviði ráðuneytisins. Um er að ræða löggjöf sem ekki á lengur við sökum breyttra aðstæðna eða sökum þess að ráðstafanir sem lögin kváðu á um eru um garð gengnar. Allt er þetta til að einfalda lífið. Er nóg að gert? Nei. Þess vegna skiptir þessi tillaga máli. Þess vegna skiptir máli að við séum stöðugt vakandi og ræðum hvort við séum í hvert einasta skipti sem við ræðum lagasetningu, ég tala nú ekki um veitum síðan reglugerðarheimildir, að vinna í þágu annars vegar almennings og hins vegar atvinnulífsins.

Hæstv. forseti. Ég fagna þess vegna þessari tillögu og mun leggja mig fram eins og mér er unnt við að efla umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd og síðar, þegar efnahags- og viðskiptanefnd hefur lokið störfum, að stuðla að því að hér verði kannski aðeins líflegri og öflugri umræður og aðeins fleiri þingmenn í salnum vegna þess að hér er ekki um léttvægt mál að ræða. Þegar kemur að regluverki atvinnulífsins eru það alvörumál, alveg með sama hætti og þegar skattar og gjöld eru rædd, þó að sumir þingmenn gangi um þau mál eins og eitthvert hlaðborð.