150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[17:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi varðandi kostnað atvinnulífsins. Ég hefði auðvitað átt að benda á það, en hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson vék að því, að samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar, sem var unnin árið 2004, sem ég held að sé nýjasta og skásta skýrsla sem hefur verið unnin, var kostnaður atvinnulífsins á verðlagi ársins 2003 metinn um 7,2 milljarðar, þ.e. kostnaðurinn við að framfylgja þeim eftirlitsreglum sem gilda. Þetta eru u.þ.b. 15 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Frá þeim tíma hefur hins vegar umfang regluverksins aukist. Það er orðið flóknara o.s.frv. Ég hygg að óhætt sé að segja að það kosti atvinnulífið yfir 20 milljarða á ári. Sumt af því er nauðsynlegt, annað er það ekki.

Eitt vil ég benda hv. þingmanni á. Ég er ekki alveg viss um að það sé endilega æskilegt að fjölga þingmannamálum sem ná í gegn. Ég er heldur ekkert almennt fylgjandi því að lagafrumvarp renni líkt og á færibandi í gegnum þingið og mér hefur aldrei líkað það þegar þingmenn koma á vori og hreykja sér af því að yfirstandandi þing hafi verið mjög afkastamikið og duglegt og afgreitt svo og svo mörg mál, 100 frumvörp og 50 þingsályktunartillögur o.s.frv. Ég held að efnisatriðin skipti máli. Það er efni frumvarpanna sem skiptir máli en ekki fjöldi þeirra. Það eru áhrif frumvarpa sem við samþykkjum eða fjöllum um, áhrif á einstaklinga, heimili og atvinnulíf, sem við eigum að spyrja um. En við spyrjum því miður sjaldan um þau.