150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[17:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið mig eða ég talað óskýrt. Ég leggst ekki gegn því að þingmenn leggi fram mál, þvert á móti. Ég held að það sé eftirsóknarvert. En það er ekki endilega eftirsóknarvert að þingið afgreiði hvert frumvarpið eða hverja þingsályktunartillöguna á fætur annarri á færibandi. Það er efnisinnihaldið sem skiptir máli. Forvitnilegt væri að fá úttekt á því hversu mörg frumvörp þingmenn leggja fram sem fela í sér aukin útgjöld, hærri skatta eða flóknara regluverk versus þau sem fela í sér lægri skatta, einfaldari reglur og minni útgjöld. Ég hygg að í seinni flokknum séu ekki mjög mörg mál, því miður. Það segir mér að við sem hér sitjum ættum að minnsta kosti að hugleiða — og þetta á líka við um stjórnarfrumvörp — hvort ástæða sé fyrir okkur að hreykja okkur hátt yfir að hafa afgreitt 10, 20, 30 frumvörpum fleiri á því þingi sem nýlokið er en árið á undan, að vísitala samþykktra frumvarpa hafi rokið upp, þegar liggur fyrir að líkur eru á að útgjöld hafi aukist, skattar hækkað og regluverkið allt orðið flóknara og erfiðara, lífið hafi ekki orðið einfaldara heldur aðeins þyngra og við lagt þyngri byrðar á fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur. Markmið okkar er ekki að hámarka fjölda afgreiddra þingmála heldur hámarka það sem við getum gert (Forseti hringir.) til að gera líf einstaklinga og fyrirtækja einfaldara og þægilegra.