150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessa ræðu hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir, hefði ég viljað heyra um daginn í umræðunni um þriðja orkupakkann. Þar var nú aldeilis verið að berjast á móti því að líf einstaklinga og fyrirtækja yrði flóknara og erfiðara en ella. Ég vildi óska þess að hv. þingmaður hefði hugsað sig vel um áður en hann galt jáyrði við því máli sem á eftir að hafa afleiðingar næstu áratugina til hins verra, ekki bara á okkar kynslóð heldur næstu kynslóðir. Þarna talaði þingmaðurinn aðeins í kross. Auðvitað er það rétt að frumvörp og þingsályktunartillögur eiga ekki að renna í gegn á færibandi. Að vísu gera þau það stundum líka vegna þess að stjórnvöld hvers tíma eru óskipulögð í framlagningu þingmála sinna og ég ætla bara að nefna eitt nýlegt dæmi sem er fjármálaáætlun, sú síðasta, og umræða um hana sem var í skötulíki. Eins má náttúrlega segja líka — og það er kannski kjarni í þessari tillögu hér — að búið sé að framselja mikið vald frá stjórnmálamönnum til embættismanna, og við getum bara nefnt fjárlög hvers árs. Ég held að hver einasti þingmaður ætti að líta í eigin barm eða horfa í spegil og hugsa með sér: Hafði ég áhrif til góðs í þessu fjárlagafrumvarpi? Ég er hræddur um að svarið sé nei í nánast öllum tilfellum. Ég vil líka benda á að síðustu tvenn fjárlög, sem hafa verið samin af excel-mönnum uppi í fjármálaráðuneyti, hafa verið tekin úr meðförum þingsins milli 2. og 3. umr. til að gera á þeim virkilega miklar breytingar sem varða bæði fólk og fyrirtæki án þess að þingheimur hafi fengið rönd við reist. Þannig að ég held að kjarninn í þessari tillögu hér sé að mörgu leyti sá að við þurfum að hafa bönd á kerfinu og fara að draga úr áhrifum þess en auka áhrif þeirra sem eru kjörnir til þess að hafa áhrif.