150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[17:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að segja og kemur kannski fáum á óvart að við í Viðreisn og þingmenn Miðflokksins séum ósammála um æðimargt. Um þetta erum við hins vegar sammála. (Gripið fram í.) Ég fagna þessu máli og tel það þarft og mikilvægt verkefni og get staðhæft að við í Viðreisn munum styðja brautargengi þess í þinginu. Ég er sjálfur í efnahags- og viðskiptanefnd þangað sem ég geri fastlega ráð fyrir að málinu verði vísað. Það er allt of lítið gert í þessum efnum, við erum allt of dugleg í þessum sal og í stjórnsýslunni almennt við að finna upp leiðir til að leggja nýjar reglur á fyrirtæki og fólk án þess að gæta að því að ekki sé um of þrengt að samkeppnishæfni og rekstrarskilyrðum fyrirtækja almennt.

Það er alveg hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar, lífskjör þjóðarinnar eru undir, sá þróttur sem er í atvinnulífinu til að skapa vel launuð störf og stuðla að mikilli og traustri velsæld til lengdar. Þetta er verkefni sem við eigum alltaf að vera í. Við eigum stöðugt að vera að endurskoða regluverkið með það fyrir augum að reyna að einfalda það og gera það skilvirkara. Eins mikilvægt og regluverk er til að tryggja að eðlilega sé unnið, að skattareglum sé fylgt, hugað sé að umhverfissjónarmiðum og öðru þvílíku, er íþyngjandi regluverk gríðarlega skaðlegt frjálsri samkeppni. Það gleymist oft í þessu samhengi að íþyngjandi regluverk er skaðlegast litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það eru þau sem eiga erfiðast með að rísa undir slíku og í raun skapar íþyngjandi regluverk ákveðið samkeppnisforskot fyrir stór fyrirtæki. Þau eiga miklu auðveldara með að ráða sérfræðinga til starfa, vera með lögfræðinga á sínum snærum til að sigla fyrirtækjunum í gegnum flókið net regluverksins en lítil og meðalstór fyrirtæki gefast jafnvel einfaldlega upp fyrir ómöguleikanum. Þess vegna er mjög mikilvægt að huga stöðugt að þessu og auðvitað væri óskandi að núverandi ríkisstjórn hefði meiri áhuga á því að einfalda regluverk almennt.

Þetta mál er náskylt máli sem ég lagði fram á Alþingi á síðasta ári. Það fól í sér svipað, að fá OECD til að vinna svokallaða samkeppnisúttekt á öllu okkar regluverki og lagaverki með það fyrir augum að afnema óþarfar reglur sem fyrst og fremst virka til þess að hamla frjálsri samkeppni á markaði. Árangur annarra ríkja af slíkri úttekt er ótvíræður og hefur markvert aukið hagvöxt í þeim löndum. Ég vona svo sannarlega að til þeirrar reynslu verði horft verði ráðist í endurskoðun sem þessa.

Það sem er mikilvægt að gleyma ekki í þessu samhengi er samkeppnisvinkillinn sjálfur, að sérstaklega sé horft til regluverks sem hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Okkur í Viðreisn greinir aðeins á við Miðflokkinn þegar kemur að ákveðnum atvinnugreinum eins og landbúnaði þar sem við höfum jafnvel reist upp hreinar samkeppnisskorður, jafnvel lögbundið samráð, ef svo mætti segja, eða veitt atvinnugreininni að talsverðu leyti undanþágu frá samkeppnislögum. Mér finnst mikilvægt þegar við horfum til slíkra þátta, þó að okkur greini oft á um markmið og tilgang slíks regluverks sem ég veit að er sett fram í góðum ásetningi, að verja íslenskan landbúnað, að við spyrjum líka: Getum við náð þeim markmiðum öðruvísi en að hamla frjálsri samkeppni á markaði? Frjáls samkeppni á markaði er einfaldasta og skilvirkasta leiðin til að tryggja hagsmuni neytenda, tryggja að vöruverð sé eins lágt og verið getur, öllum neytendum til hagsbóta. Þess vegna vona ég að þetta verkefni komist á koppinn hjá stjórnvöldum og að sérstaklega verði horft til þess með hvaða hætti megi afnema samkeppnishamlandi reglur.

Einföld leið til að auka skilvirkni eftirlitskerfis og einfalda um leið starfsumhverfi fyrirtækja væri að sameina talsvert af þeim eftirlitsstofnunum sem við erum með þannig að þá verði á færri staði að leita og auka um leið leiðbeiningarskyldu þessara eftirlitsstofnana. Sérstaklega hafa stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið verið gagnrýndar mjög harðlega fyrir að neita jafnvel að leiðbeina fyrirtækjum um hvernig þau eigi að fara að þeim reglum sem gilda. Það er óþolandi viðmót eftirlitskerfis að neita að sinna almennri og eðlilegri leiðbeiningarskyldu gagnvart þeim fyrirtækjum sem starfa undir hatti þess.

Á þetta tvennt mætti leggja sérstaka áherslu, hvernig við drögum úr og fækkum samkeppnishamlandi reglum og hvernig við getum síðan sameinað eftirlitsstofnanirnar. Það myndi um leið auka skilvirkni í ríkisrekstrinum almennt. Svo væri ágætisviðmið í þessum sal að við mæltum almennt ekki fyrir eða styddum nýjar reglur sem eru samkeppnishamlandi og hafa jafnvel þann beina tilgang að vera nákvæmlega það, samkeppnishamlandi og neytendum til skaða. Þetta mál er hið besta mál og ég vona svo sannarlega að það fái framgöngu í þessum sal.