150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Málið er endurflutt, það var lagt fram á 144. og 145. þingi en er nú endurflutt með lítillega uppfærðri greinargerð sem endurspeglar þá þróun sem hefur átt sér stað í málaflokknum undanfarin ár og ýmsar lagabreytingar. Við í Pírötum hugsuðum okkur að leggja þetta aftur fram á sínum tíma en þá voru sett lög um nefnd um eftirlit með lögreglu og við vildum sjá hver reynslan yrði af þeirri nefnd, sjá ársskýrslur þeirrar ágætu nefndar og reynsluna af henni og meta svo framhaldið. Á þeim tíma töldum við líklegt að það þyrfti meira en þá annars ágætu nefnd og fjalla ég aðeins meira um hana síðar.

Fyrst skulum við hafa á hreinu hvað við erum að tala um. Ég vil lesa efni tillögunnar, svo það sé skýrt, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis að semja lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Við undirbúning frumvarpsins verði m.a. litið til þess að stofnunin fái þau verkefni að:

a. hefja athugun að eigin frumkvæði,

b. taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum,

c. rannsaka ætluð brot lögreglumanna í starfi,

d. rannsaka tilkynningar um einelti og kynferðislega áreitni innan lögregluliða,

e. rannsaka efni nafnlausra ábendinga innan lögreglu eða stjórnsýslu.

Þá verði við undirbúning frumvarpsins metið hvort stofnunin geti einnig farið með ákæruvald í slíkum eftirlitsmálum. Í frumvarpinu verði kveðið sérstaklega á um sjálfstæði stofnunarinnar.“

Eins og heyrist fjallar tillagan um að sjálfstæð stofnun verði sett á fót. Stundum er í dægurmáli talað um innra eftirlit lögreglunnar sem mætti segja að væri nú þegar til staðar. Ég hygg að það sé vond þýðing úr bandarískum lögregluþáttum. Hér er um að ræða ytra eftirlit sem er ekki innan úr lögreglustofnununum sjálfum heldur stendur fyrir utan og er undirstofnun Alþingis eins og Ríkisendurskoðun eða umboðsmaður Alþingis. Slíkar sérstakar stofnanir undir Alþingi yrðu þá þrjár.

Nú vísa ég í greinargerð hvað varðar umfjöllun um hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndunum. Það er með ýmsu móti en þó er skemmst frá því að segja að víða þykir eftirlitið ekki nógu sjálfstætt. Við skoðun á málinu erlendis kemur oft upp að það virðist þurfa mikið til svo það þyki trúverðugt að eftirlitið sé nógu sjálfstætt. Er þar um að ræða að starfsmenn slíkra stofnana eða nefnda eru oft fyrrverandi lögreglumenn og vel innviklaðir í þann heim. Margir telja það geta haft þau áhrif að trúverðugleiki eftirlitsins sé ekki jafn mikill og maður myndi vilja. Maður vill auðvitað hafa hann algjöran eða svo gott sem.

Aðeins um nefnd um eftirlit með lögreglu sem nú þegar er starfrækt. Heimasíðu hennar er að finna á slóðinni nel.is. Þar er t.d. hægt að skoða ársskýrslur þeirrar ágætu nefndar. Hún var sett á fót fyrir örfáum árum, um svipað leyti og Píratar lögðu málið fram í annað sinn, og hefur það hlutverk að beina kærum og kvörtunum í farveg innan lögreglunnar og þess háttar en hún hefur sem dæmi ekki rannsóknarheimildir og getur ekki beitt viðurlögum. Hún kortleggur málin, veitir upplýsingar og gefur út ársskýrslur, sem eru fróðlegar, en hins vegar er hún mun minni en það sem hér er lagt til að verði sett á fót.

Sem dæmi væri eftirlit þessarar stofnunar með lögreglu með því að verklagsreglur væru til og væru aðgengilegar. Hún hefði eftirlit með valdbeitingu lögreglunnar, sama hvernig sú valdbeiting er. Eins og við þekkjum af fréttum og sum okkar af persónulegri reynslu er valdbeitingin stundum umfram það sem kannski hefði þurft að vera, þ.e. ekki er gætt meðalhófs. Auðvitað er eilíft bitbein í störfum eins og lögreglan gegnir hvort meðalhófs sé gætt hverju sinni. Við verðum svo sem aldrei frjáls undan þeirri umræðu vegna þess að þetta er stofnun sem hefur heimild til að beita líkamlegu valdi og því fylgja alltaf slík matsatriði. Það verður aldrei algjörlega hárfín, skýr og svört lína um hvar þau mörk liggja eða nákvæmlega hvernig hefði átt að bregðast við undir hinum eða þessum kringumstæðum. Hlutirnir geta gerst hratt og óvænt á gólfinu, sem sagt úti í samfélaginu, þar sem valdinu er beitt.

Stofnunin hefði eftirlit með húsleitum og símahlustunum. Lagðar hafa verið fram skýrslubeiðnir, ein nýlega af minni hálfu, um tíðni símahlustana, hversu oft þeirra sé óskað og hversu oft þær séu heimilaðar af dómurum. Margt má segja um það en ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara mjög ítarlega út í þá sálma enda dugir að segja að það sé alveg þess virði og tilefni til að athuga betur hvort endilega sé alltaf tilefni til að beita slíkum úrræðum þegar beðið er um þau, sér í lagi að skoða einnig hvort fullfrjálslega sé farið með að samþykkja slíkar beiðnir af hálfu dómaranna.

Hið sama á við um húsleitir. Ég verð eiginlega að tala líka sérstaklega um húsleitir og líkamsleitir. Aftur og aftur heyrast sögur af því að lögreglumenn séu staddir einhvers staðar, t.d. á skemmtun eða tónleikum, og óski eftir því við borgara að fá að leita á honum. Borgarinn segir nei eða hváir og þá er honum hótað því að hann verði færður niður á stöð og látinn bíða þar eftir að dómari úrskurði að heimilt sé að leita á borgaranum. Það er bara við tvennar kringumstæður hægt að leita á borgaranum, ef hann samþykkir það sjálfur eða ef dómari úrskurðar svo. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að lögreglan á það til að hóta fólki, að mínu mati tilhæfulaust, því að fara með það niður á stöð og þar af leiðandi eyðileggja oft og tíðum alla skemmtunina, sér í lagi ef hún á sér stað úti á landi þar sem fjarlægðir eru miklar og tíminn er pínu dýrmætur, til að fá að leita á fólki. Þetta er nokkuð sem þarf líka að hafa eftirlit með.

Svona atriði verða síðan aldrei alveg fullkomlega klippt og skorin reglum samkvæmt. Það þarf að hafa einhvers konar eftirlit með þessu vegna þess að lögreglan þarf að hafa heimildir til þess að fara með fólk niður á stöð og bíða þar eftir úrskurði dómara. Þetta þarf að vera svona en þá er mikilvægt að við séum alveg með á hreinu hvernig þessum völdum sé raunverulega beitt. Um það snýst málið, ekki það að lögreglan hafi of mikil völd í sjálfu sér. Þótt eflaust mætti færa einhver rök fyrir því í einstaka dæmum snýst þetta meira um að valdi sem lögreglan þarf að hafa sé beitt af þeirri næmni og kostgæfni sem við ætlumst til gagnvart frjálsum og sjálfstæðum borgurum sem vilja m.a. hafa friðhelgi sína í friði.

Annað sem þessi stofnun myndi hafa eftirlit með væri handtökur. Það er kannski ekki skrýtið að þegar fólk er handtekið hafi það stundum eitthvað út á handtökuna að setja. Enn og aftur birtast eflaust í okkar ágæta samfélagi áhrif frá bandarískum bíómyndum þar sem rosalega mikið er lagt upp úr því að fólki séu lesin hin svokölluðu réttindi sem á ensku kallast „Miranda rights“. Að því er mér skilst er skylda lögreglumanna að útskýra fyrir fólki réttindi þess en það er alveg ljóst að hugmyndin um hvað það feli í sér er frábrugðin því sem borgarinn hér á landi býst oft við. Maður heyrir sögur af því að borgarinn spyrji ítrekað um eitthvað sem hann á alveg að fá að vita en það er látið eins og hann spyrji bara vegna þess að hann vilji vera með einhverja vitleysu. Það er ákveðið virðingarleysi gagnvart því að borgarinn hafi rétt á því að vita hluti sem lögreglumanninum finnst kannski augljósir en borgaranum ekki. Óháð því eru það réttindi borgaranna sem hafa yfirhöndina.

Síðan er þarna vistun einstaklinga sem þarf að hafa eftirlit með líka. Reyndar er sem betur fer komið upp núna OPCAT-eftirlit sem er mjög jákvæð þróun en það er líka sjálfsagt að þessi stofnun hafi eftirlit með slíku. Þessi stofnun myndi taka við kvörtunum frá borgurum, félögum, lögaðilum eða í raun og veru hverjum sem er og hafa rannsóknarheimildir.

Að lokum má nefna það sem er skilið eftir sem ákveðið útfærsluatriði handa forsætisnefnd til að setja í lagafrumvarpið eftir atvikum og það er hvort þessi stofnun ætti að fara með ákæruvald. Uppi eru spurningar um hvernig það samrýmist þrískiptingu valdsins og þar er fleira sem er alveg þess virði að athuga en er ekki skýrt kveðið á um í þessari tillögu heldur einungis að sú athugun fari fram.

Að öðru leyti vísa ég til greinargerðarinnar hvað varðar efni tillögunnar. Hún er heldur ítarleg, upp á 15 blaðsíður. Ég hef ekki tíma, og ekki heldur vilja ef út í það er farið, til að fara yfir hana alla en ég vil líka að lokum segja að tillögur sem þessar eru þegar allt kemur til alls hugsaðar til að auka traust og viðhalda trausti til lögreglunnar. Við tökum því oft sem sjálfsögðum hlut í okkar litla og í öllum meginatriðum friðsamlega samfélagi að borgararnir treysti lögreglunni. Það er gott og blessað fyrir þá borgara sem treysta henni en ekki þá borgara sem treysta henni ekki. Margir borgarar treysta henni ekki, iðulega eftir samskipti sín við hana. Í þeirri umræðu er oft stutt í að þeir borgarar fái þann stimpil að þeir hafi eitthvað slæmt á samviskunni eða hljóti að hafa gert eitthvað af sér en sú orðræða og þau svör undirstrika nákvæmlega ástæðuna fyrir því að það þarf að vera sjálfstætt eftirlit með lögreglunni. Engu okkar er einfaldlega treystandi. Manneskjunni er einfaldlega ekki treystandi, það þarf alltaf að vera einhvers konar mótvægi og aðhald með öllum stofnunum sem fara með vald, þar á meðal Alþingi. Þess vegna erum við með þrískiptingu valdsins. Þess vegna höldum við kosningar. Þess vegna erum við með mun á því hvað framkvæmdarvaldið gerir, löggjafarvaldið og dómsvaldið. Þess vegna eigum við að vera með aðhaldsstofnun, eftirlitsstofnun, með því nauðsynlega fyrirbæri í samfélagi okkar sem lögreglan er. Það er sú stofnun sem getur farið með líkamlegt vald yfir borgaranum. Það er mikilvægt vald. Það er mikilvægt að lögreglan hafi þessar heimildir og það er í því ljósi sem þarf að vera eftirlit með þeim.

Það er ekki áfellisdómur yfir lögreglumönnunum sjálfum og reyndar ekki áfellisdómur yfir einu eða neinu. Það er eðlilegt í lýðræðissamfélagi þar sem við metum frelsi borgaranna og friðhelgi þeirra mikils að við sýnum þá viðleitni í verki með því að tryggja aðhald og mótvægi gagnvart öllum þeim valdastofnunum sem við neyðumst til að setja á fót til að viðhalda friði og frelsi í samfélaginu.