150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið en nei, hann svaraði ekki alveg því sem ég var að velta fyrir mér vegna þess að hann segir núna að þessi stofnun eigi ekki að skipta sér af úrskurðum um húsleitir og símhleranirnar en það reyndar kom fram, að mér fannst, í ræðu hans áðan og fyrra andsvari. Mér finnst eins og þessi tillaga sé sett upp út frá þeim forsendum að lögreglan sé hópur manna sem áreiti borgarana í landinu, sem er náttúrlega alls ekki upplifun þeirra sem til þekkja. Ég þekki ágætlega til í lögreglunni, er góðkunningi hennar og vann með henni í 11 ár. Ég veit ekki betur en að þar séu verkferlar mjög skýrir. Ég veit ekki betur en að menn gangi þar fram af ýtrustu hófsemi. Vissulega hefur andrúmsloftið og þjóðfélagið að mörgu leyti breyst til hins verra.

Almennileg ástæða fyrir líkamsleit? Hver á að meta hvað sé almennileg ástæða fyrir líkamsleit? Er það t.d. almennileg ástæða fyrir líkamsleit þegar fíkniefnahundurinn gefur merki? (Forseti hringir.) Eða hvað eru almennilegar ástæður fyrir líkamsleit?