150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni biðum við með að leggja málið fram aftur einmitt vegna þess að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu var sett á fót og við vildum sjá hver reynslan af henni yrði. Við sáum þó að hlutverk þeirrar nefndar væri ólíkt því sem við leggjum til. Við leggjum til eftirlit sem hefur rannsóknarheimildir og viðurlagaheimildir á meðan nefnd um eftirlit með lögreglu hefur þær ekki. Við biðum eftir ársskýrslum þeirrar nefndar sem eru komnar fram og við lásum þær og lögðum málið fram aftur, uppfært með hliðsjón af skýrslunum og reynslunni sem varð af því fyrirkomulagi — sem vissulega var afleiðing af áliti umboðsmanns Alþingis frá árinu 2013. Það að brugðist hafi verið við þýðir ekki sjálfkrafa að nógu vel hafi verið brugðist við. Það er svo einfalt. Það er ekki nóg að bregðast einhvern veginn við. Það er alla vega okkar pólitíska afstaða að það þurfi meira eftirlit með lögreglunni.

Hvað varðar sögusagnirnar getur hv. þingmaður gluggað í þessar skýrslur. Það kemur alveg fram í orðum borgaranna þar líka að þeir telja þessa stofnun hafa alls konar heimildir sem hún hefur ekki. Þeir gera ráð fyrir að það sé meira eftirlit með lögreglunni og það sé hægt að gera meira en þeir upplifa að sé gert. Það eru ekki sögusagnir, það er frásagnir borgaranna. Þegar við höfum þær (Forseti hringir.) frásagnir gagnvart lögreglunni, með hliðsjón af skýrslunum og reynslunni og vissulega samtölum við borgarana, er að mínu mati rétt að bregðast við með tillögu eins og þessari.