150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum framsöguna og þakka honum þessa tillögu vegna þess að ég held að þótt ekkert annað komi út úr henni muni hún alla vega gefa okkur tilefni til að leggjast ærlega yfir reynsluna af þeim breytingum sem hafa orðið á eftirliti með lögreglu á undanförnum árum. Nefnd um eftirlit með lögreglu var skref fram á við en ég held að núna sé bara kominn góður tími til að taka stöðu á þeirri þróun og sjá hvernig við getum byggt kerfið þannig að það byggi upp traust á lögreglu og sjá til þess að störf hennar séu eins góð og unnt er.

Mig langar að spyrja þingmanninn í fyrra andsvari út í afmörkun þeirra verkefna sem hann sér fyrir sér að fela þeirri stofnun sem hér er lögð til. Í stafliðum tillögurnar eru talin upp ýmiss konar brot á réttindum eða brot í starfi. Þetta eru alvarlegustu meinsemdirnar sem geta komið upp í þessu starfi sem eiga oft kannski réttari leið í gegnum dómskerfið. En tökum bara dæmi úr upphafi greinargerðarinnar: Hvað með beitingu lögreglu á skotvopnum án þess að eitthvert brot sé ætlað? Væri ekki eðlilegt að slík tilvik væru skoðuð sjálfkrafa, að í hvert sinn sem lögregla sæi ástæðu til að grípa til skotvopna vissu allir hlutaðeigandi að það yrði skoðað ofan í kjölinn eftir á af hlutlausum aðila? Hvað með framkvæmd hlerana? Þó að við séum með eitthvert kerfi utan um þær held ég að ástæða væri til að vera með sjálfvirkt eftirlit með hverju einasta tilviki til að tryggja að þessi heimild væri ekki ofnotuð, ekki bara þegar um er að ræða ætluð brot heldur almennt og alltaf.