150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

stimpilgjald.

18. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald sem fjallar um kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Þetta er í fimmta sinn sem málið er lagt fram en upphaflega flutti málið núverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, og hefur hún verið fyrsti flutningsmaður að málinu hingað til, en við sem flytjum það núna eru Vilhjálmur Árnason, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson og Jón Gunnarsson.

Eins og áður segir hefur málið verið lagt fram áður og hefur það verið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki náðist að klára það fyrir þinglok og þess vegna er það flutt aftur nú. Umsagnir sem bárust um málið á 149. löggjafarþingi voru almennt jákvæðar gagnvart efni frumvarpsins og breytingu þess á fyrirkomulagi stimpilgjalda.

Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og undanþágan verður ekki bundin við fyrstu kaup.

Markmið frumvarpsins eru að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf er á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði. Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.

Ég vil geta þess að hér erum við að leggja áherslu á stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Margir, þar á meðal sá sem hér stendur, myndu náttúrlega helst vilja að lög um stimpilgjöld féllu alfarið á brott. Þetta er villandi nafn, stimpilgjald, en gjöld eru almennt þannig að þau eiga að standa undir þeim kostnaði sem verður til af þeirri þjónustu sem veitt er, en þar sem þetta er föst prósenta og langt frá þeim veruleika, sérstaklega núna í stafrænum heimi, er undarlegt að svona mikill kostnaður sé við þessa eignaumsýslu. Þetta er ekkert annað en eignaumsýsluskattur sem er mjög ósanngjarn og ætti að falla niður. En við höfum ákveðið að fara þá leið að fókusera á húsnæðismálin og það harmónerar við annað sem núverandi ríkisstjórn vinnur að.

Fyrst vil ég nefna einföldun regluverks. Þetta kemur inn á það og einfaldar þessi viðskipti og verður þá einni hindrun færri í höndum fólks. Það hefur alveg komið ljóst fram að ríflegur meiri hluti eða nánast allir sem eru á húsnæðismarkaði vilja vera í eigin eign. Það er almennt þannig að fólk vill búa í sínu eigin húsnæði. Fyrir þá sem eru kannski með lægsta hlutfall af eigin fé og eru að kaupa sína fyrstu eign getur stimpilgjald komið eins og skrattinn úr sauðarleggnum þegar búið er að ganga frá viðskiptunum, að þurfa þá að borga stimpilgjald. Það getur því verið mjög erfitt fyrir þá sem eru á lægri mörkunum að fjármagna fasteign sína. Það mun að sjálfsögðu hjálpa ungu fólki, og þeim sem hafa minna á milli handanna, sem er að kaupa sína fyrstu fasteign að þurfa ekki að fá þennan bakreikning eins og margir upplifa það oft.

Ég tel því að þetta mál sé mjög mikilvægt. Þetta tengist mörgum málum á þingmálaskrá félagsmálaráðherra sem eiga að aðstoða fólk, t.d. fyrstu íbúðarkaupendur og líka þá sem hafa ekki átt fasteign í fimm ár, þetta hjálpar þeim. Ég vil einnig benda á þingmálaskrá fjármálaráðherra sem gerir ráð fyrir að afnema stimpilgjöld af viðskiptum með skip. Það er líka hluti af ástæðunni að vera ekki að taka of stóran hlut í einu, en það vildi ég helst.

Ég vænti þess að málið fái góðar undirtektir meðal þingheims og fái skjóta og góða afgreiðslu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tel þetta vera akkúrat mál sem skjóti styrkari stoðum undir það sem við erum að vinna að hér, að auðvelda fólki að eignast húsnæði, hjálpa þeim sem hafa minna á milli handanna, einfalda regluverk og gera líf fólks almennt betra og sanngjarnara. Það er hlutverk okkar stjórnvalda. Ég hef því mikla trú á að málið fái greiða leið í gegnum Alþingi Íslendinga.