150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

samvinnufélög o.fl.

19. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög. Flutningsmenn þessa frumvarps eru sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Þorsteinn Sæmundsson og Þorsteinn Víglundsson.

I. kafli er um breytingu á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum, og hljóðar 1. gr. þannig:

„Við 77. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Samvinnufélagaskrá getur lagt dagsektir á samvinnufélag sem fer ekki að ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 27. gr. Greiðast dagsektirnar þangað til samvinnufélag tilkynnir samvinnufélagaskrá að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til fjárhagslegs styrkleika félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.“

Ég vil undirstrika að það sem kemur hér á eftir, í 2.–4. gr., er sami texti og í 1. gr. en varðar breytingu á fleiri lögum. Það er sami texti og lesinn var hér á undan í II. kafla, breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum, og hann á líka við um III. kafla frumvarpsins sem varðar breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum. Í kafla IV um breytingu á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007, með síðari breytingum, vísa ég einnig til þess texta sem í upphafi var lesinn með hliðsjón af þeim lögum sem breytingarnar ná til.

Í 5. gr. frumvarpsins segir: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.“

Hér er greinargerð með þessu máli sem er endurflutt frá síðasta þingi.

„Sambærilegt frumvarp var lagt fram á 149. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Í frumvarpinu er lagt til að það varði dagsektum ef ekki er farið að ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Málefni þetta var til umræðu í atvinnuveganefnd á 148. löggjafarþingi og þá fundaði nefndin m.a. með fulltrúum Félags kvenna í atvinnurekstri sem vísuðu til þess að staða mála hér á landi væri óviðunandi hvað varðar hlutfall kvenna í stjórnum félaga.

Með lögum nr. 13/2010, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, voru lögfest ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Ákvæðin öðluðust gildi 1. september 2013 þannig að gefinn var rúmur aðlögunartími. Með lögum nr. 49/2011 var gerð sambærileg breyting á lögum um sameignarfélög og lögum um samvinnufélög. Í ákvæðunum felst að þar sem starfsmenn eru fleiri en 50 að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar hún er skipuð þremur mönnum en þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

Í Noregi voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga árið 2003. Þar var kveðið á um fjölda fulltrúa af hvoru kyni í samræmi við fjölda meðlima stjórna og að hlutur hvors kyns í stjórn skyldi vera að lágmarki 40% í stjórnum sem teldi fleiri en níu einstaklinga. Eftir innleiðingu norsku laganna hækkaði hlutur kvenna í stjórnum hlutafélaga úr 6% árið 2002 í 40% árið 2011. Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja í Noregi hækkaði úr fjórðungi stjórnarmanna árið 2004 í 36% árið 2006 og náði 42% árið 2009. Samkvæmt Sissel Jensen, norskum hagfræðingi, er aukinn hlutur kvenna meðal þeirra sem fá hæst laun bein afleiðing kynjakvótans. Konur fá frekar tækifæri til að vera meðal æðstu stjórnenda þegar stjórnin sjálf er skipuð bæði körlum og konum. Þessar niðurstöður koma heim og saman við tilgang laganna, þ.e. að fleiri konur fá tækifæri til áhrifa í viðskiptalífinu.

Þrátt fyrir að Ísland hafi fylgt nokkuð fast á eftir fordæmi Noregs með lagasetningu um kynjakvóta í stjórnum félaga hefur ekki náðst sami árangur á Íslandi. Gefinn var rúmur aðlögunartími fyrir gildistöku ákvæða um hlutfall kynja í stjórnum en hlutfallið hefur ekki jafnast og ákvæðum hefur í reynd ekki verið fylgt. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru konur 26,2% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð voru í hlutafélagaskrá í lok árs 2018. Þá var hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 launþega 33,5%. Hafa þessi hlutföll staðið nokkurn veginn óbreytt frá árinu 2014. Flutningsmenn telja tímabært að skýrt verði kveðið á um það í lögum að heimilt sé að leggja dagsektir á þau félög sem ekki fara að ákvæðum um hlutföll kynja í stjórnum svo að markmið þeirra nái fram að ganga.

Þrátt fyrir að um töluvert inngrip sé að ræða telja flutningsmenn að nauðsynlegt sé að grípa til slíkra aðgerða til að ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum samvinnufélaga, einkahlutafélaga, hlutafélaga og sameignarfélaga nái markmiði sínu. Jafnframt sé löggjafanum heimilt, þrátt fyrir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, að setja athafnafrelsi nauðsynlegar skorður séu fyrir því eðlilegar og málefnalegar ástæður.“

Ég tel að þetta mál ætti að fara hratt og vel í gegnum þingið núna. Það fékk umfjöllun á síðasta þingi í efnahags- og viðskiptanefnd og umsagnir bárust. Það er breiður vilji fyrir því innan þingsins, tel ég, að þetta frumvarp nái að verða að lögum. Þingmenn frá öllum flokkum flytja frumvarpið nú í annað sinn og það er þrýstingur frá aðilum úti í þjóðfélaginu, Félagi kvenna í atvinnurekstri og fleiri jafnréttissinnum í samfélaginu. Við það verður ekki unað að lögum um hlutföll kynja í stjórnum frá árinu 2013 sé ekki framfylgt sem skyldi. Við sem setjum lög teljum auðvitað rétt og skylt að þeim sé framfylgt og í þessu máli var góður aðlögunartími að því að undirgangast hin nýju lög á sínum tíma. Núna er líka gefinn rúmur aðlögunartími og umræða var um þetta mál á síðasta þingi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi eftir rúmt ár, þann 1. janúar 2021, svo að ég tel að öll þau fyrirtæki sem hafa ekki þegar uppfyllt þau skilyrði sem eru í þeim lögum sem við vísum til hafi nægan tíma til þess að gera betur og ég hef ekki trú á nokkru öðru en að þau vilji gera betur. Ég held að það verði ekki vandræði með að fá hæfar konur til þess að gegna stöðum í stjórnum fyrirtækja. Allir vita að góð blanda kvenna og karla er oft það sem gerir gæfumuninn í stjórn fyrirtækja, í viðskiptalífinu og hvar sem er í samfélaginu. Við þurfum að vinna saman og unga fólkið þarf að hafa fyrirmyndir, hvort sem er í stjórnmálum, atvinnulífinu, viðskiptum eða hvar sem er í samfélaginu. Þetta er hluti af því að líta á það sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut að konur og karlar deili ábyrgð og séu í forystu fyrirtækja. Með því eru miklu meiri líkur á að launajafnrétti og annað jafnrétti sem konur, og karlar líka, hafa barist fyrir náist, að við náum því fram að virkja kraft kvenna og horfa til þess að það er ávinningur fyrir fyrirtæki og atvinnulíf að framfylgja þessum lögum, treysta konum og virkja kraft þeirra í stjórnum fyrirtækja.

Ég treysti því að vel verði unnið að þessu máli í efnahags- og viðskiptanefnd og það náist að afgreiða það á 150. löggjafarþingi.