150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

gagnkrafa ríkislögmanns í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég get með engu móti séð að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að það sé einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að ná sátt í málinu vegna þess að kröfugerð ríkislögmanns hlýtur að endurspegla vilja ríkisstjórnarinnar, a.m.k. fyrirsvarsmanna hennar. Það kemur skýrt fram hjá umboðsmanni Alþingis og það kemur skýrt fram í lögum um ríkislögmann, enda hvernig dettur einhverjum í hug að ráða til sín lögmann sem ber ekki undir hann kröfur, samninga eða annað sem er gert?

Ég spyr aftur: Veit ráðherra hverjir eru fyrirsvarsmenn þessa máls af hálfu ríkisstjórnarinnar? Ég spyr hann aftur: Mun hann ræða þetta á næsta ríkisstjórnarfundi og beita sér fyrir því að þetta verði dregið til baka og lögð fram sáttakrafa í málinu?