150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

borgarlína og veggjöld.

[15:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að verið er að hrinda í framkvæmd þessu stóra átaki í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu sem borgarlína er. Hins vegar hefur farið minna fyrir því að við fáum að vita hvað borgarlína raunverulega er — og svo eru það þessir gríðarlegu vegtollar sem eru boðaðir á almenning og bara alla á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega sýnist mér á þá sem búa í Reykjavík. Eðli málsins samkvæmt, sem málsvari og talsmaður þeirra sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi, hef ég gríðarlegar áhyggjur af þessu. Við höfum fengið að sjá útreikninga hjá FÍB og er áætlað að meðalfjölskylda sem býr í úthverfi, t.d. Grafarholti eða Grafarvogi, þurfi að bæta á sig í kringum 400.000 kr. á ári ef hún sækir vinnu eða annað niður í bæ. Eðli málsins samkvæmt hef ég miklar áhyggjur af þessu og mig langar til að vita hvort hæstv. ráðherra hefur að einhverju leyti reynt að útfæra það hvernig mismuna eigi borgurunum, sumir eigi að borga minna og aðrir meira; eins og oft er sagt að þeir borgi ekki sem nota heldur þeir sem mögulega geta það.

Í öðru lagi langar mig að tala um þá fjármuni sem bifreiðaeigendur og -notendur greiða í ríkissjóð í formi alls konar skatta og gjalda sem eru sennilega í kringum 80 milljarðar kr. á ári ef marka má útreikninga hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda sem er að finna á heimasíðu þess. Hvers vegna er þetta fé ekki aftur markað til samgöngu- og innviðauppbyggingar í stað þess að ætla að sækja aukið fé í vasa landsmanna og skattpína þá enn frekar en orðið er? (Forseti hringir.) Og erum við nú sennilega ein skattpíndasta þjóð veraldar.