150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[15:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra og vil byrja á að koma inn á að það verður varla boðað til mikils samráðs núna um miðjan dag á miðvikudaginn vegna samnings sem á að undirrita á fimmtudaginn, sérstaklega þegar menn hafa í huga þær hrakfarir sem samkomulagið virðist hafa orðið fyrir á undanförnum vikum, hvernig sem þær koma til. Það er mjög sérstakt að mati þess sem hér stendur að nú eigi að undirrita þetta samkomulag, væntanlega á grundvelli markmiðsgreinar í samgönguáætlun, þar sem ríkissjóður er bundinn með þeim hætti sem hér á að gera án þess að það komi heildstætt til umræðu í þinginu. Þetta eru verulegar upphæðir að því er manni sýnist af þeim skjáskotum sem maður hefur fengið að sjá, því að ekki hefur hv. umhverfis- og samgöngunefnd fengið sérstaka kynningu á þessu. Nú á að kynna þetta fyrir þingmönnum á miðvikudaginn.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann líti svo á að með undirritun sinni næsta fimmtudag, eins og nú hefur verið kynnt, hafi hann skuldbundið ríkissjóð um rúmlega 50 milljarða kr. gagnvart þessu verkefni, eða verður í samkomulaginu einhvers lags fyrirvari um sérstakt samþykki Alþingis?

Þessu til viðbótar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig verði tekið á því í samningnum ef framkvæmdakostnaður verður meiri en nú er áætlað. Lendir sá kostnaður á sveitarfélögunum eða ríkissjóði? Það er auðvelt í dag og jafnvel með grátbroslegum hætti, því miður, að telja upp óteljandi verkefni sem hafa farið verulega fram úr hvað opinberar framkvæmdir varðar undanfarin misseri.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stóð á því að ekki var minnst einu orði á Sundabraut fyrr en í uppfærðum samningsdrögum sem send voru til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í liðinni viku? Þá er ég bara að vísa í fréttir af þessu máli. Mér finnst með ólíkindum ef það er búinn til pakki upp á vel á annað hundrað milljarða (Forseti hringir.) án þess að koma Sundabraut að með einu orði.