150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[15:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það verður vissulega ánægjulegt að geta rætt þetta samkomulag sem ríkið er að gera við sex sveitarfélög á grundvelli samþykktrar samgönguáætlunar og þeirra skýrslna og vinnu sem þar hefur verið unnin, öll kynnt fyrir þinginu og öllum aðgengileg. Allir vita í hvaða átt verið var að vinna og í hvaða tilgangi. Það verður einfaldlega mjög ánægjulegt að geta tekið þessa málefnalegu umræðu um samkomulagið í heild sinni og að sjálfsögðu, hv. þingmaður, er aldrei skrifað undir samning öðruvísi en að það sé með fyrirvara um samþykki Alþingis, t.d. um hvernig eigi að koma hlutunum þar í gegn. Það þarf að leggja fram frumvarp og lög, fjárheimildir og slíkt. Það liggur í hlutarins eðli og með sama hætti er það gagnvart sveitarfélögunum þannig að ég skil ekki alveg þessar spurningar. Hér er einfaldlega verið að gera samkomulag við sveitarfélögin um lausn á umtalsverðum vanda í umferðinni hér á höfuðborgarsvæðinu sem við þekkjum öll og viljum öll, held ég, leysa.

Samkomulag þetta hefur ekki lent í neinum ógöngum á nokkurn hátt. Það var einfaldlega verið að vinna það smátt og smátt, bæta í, vinna kynningarefni, ná fram sameiginlegum skilningi á orðanna hljóðan hverju sinni og síðan náðum við niðurstöðu í síðustu viku um að ganga frá þessu, undirrita og kynna á fimmtudaginn. Mér fannst mjög gott að geta kynnt þingmönnum það áður svo að þeir þurfi ekki að fylgjast með blaðamannafundi. Ef hv. þingmanni finnst það ekki vera vísbending um að menn vilji hafa þingið með, sem vissulega hefur umtalsvert um þetta að segja þegar málin koma hingað inn, annars vegar í samgönguáætlun og hins vegar í frumvörpum er lúta að því sem þarf til til að samkomulagið verði að veruleika, (Forseti hringir.) hefur hann annan skilning en ég á því hversu mikilvægt sé að eiga samtal við sem flesta.