150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[15:23]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Nei, þetta er ekki viljayfirlýsing. Þetta er samkomulag sem ríkið gerir við sex sveitarfélög og er alveg skýrt að það er með eðlilegum fyrirvörum um aðkomu Alþingis. Varðandi kynningu á því verkefni og hvort einhver ráðherra hafi skuldbundið ríkið með jafn miklum hætti við nokkurn hlut getum við bara bent á fjárlög, þau eru kynnt fyrir minni hlutanum líka eins og öðrum í þinginu og svo fara þau inn í þingið til umfjöllunar. Þetta er mjög stórt verkefni, það er af stærðargráðu sem við höfum sjaldan séð, enda verkefnið ærið til að leysa þennan vanda. Ég er einfaldlega mjög ánægður með hversu vel hefur tekist til. Af því að hv. þingmaður blandaði Sundabraut inn í málið er hún ekki hluti af þessu samkomulagi, þ.e. þeim verkefnum sem eru innan höfuðborgarsvæðisins og hv. þingmaður getur kynnt sér þegar þar að kemur. Hins vegar er hluti af þessu samkomulagi grundvöllur þess að við getum lagt Sundabraut. Það hefur aldrei staðið annað til en að það væri hinn sameiginlegi skilningur þessa hóps og þar af leiðandi kem ég því á framfæri.

Varðandi stuðning ríkisins var það samþykkt í samgönguáætlun á síðasta ári að þeim stuðningi (Forseti hringir.) upp á 1 milljarð yrði haldið áfram til 2033 og við hyggjumst standa við það.