150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

spilafíkn.

[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fréttaþættinum Kveik frá því í mars á síðasta ári, fyrir einu og hálfu ári, var fjallað um fjárhættuspil á Íslandi, þ.e. löglegu útgáfuna af fjárhættuspilum. Lítið sem ekkert virðist hins vegar hafa gerst síðan í þessu ansi víðtæka máli en eftirliti virðist vera ábótavant. Náin tengsl eru á milli þeirra sem reka spilakassa og þeirra sem sinna afleiðingum spilafíknar. Það eru meira að segja sömu aðilar. Endurtekin skilaboð hafa síðan ómað um endurskoðun laga en ekkert gerist. Til viðbótar skrifar Helgi Seljan í frétt um málið að meðferð sem er í boði fyrir spilafíkla sé gagnrýnd en einungis örlítið brot af hagnaði af spilakassarekstri SÁÁ fer til þjónustu við spilafíkla á meðferðarstöðinni Vogi. Spilafíklar hafa gagnrýnt þá meðferð harðlega og sagt hana í skötulíki, auk þess sem þeir segja SÁÁ ekki trúverðugan meðferðaraðila fyrir spilafíkla á sama tíma og samtökin þiggi tugi milljóna króna á ári í tekjur af rekstri spilakassanna. SÁÁ er ásamt Rauða krossinum og Landsbjörgu eigandi Íslandsspila sf. Að auki er mér sagt að hluti af samningi ríkisins við SÁÁ sé að SÁÁ afli sér mótframlags, einmitt með rekstri spilakassa sem er áhugavert.

Þetta vandamál er mjög víðtækt. Það vantar betri löggjöf. Það hefur ítrekað komið fram. Það vantar forvarnir og það vantar meðferðarúrræði og það er þess vegna sem ég er hér. Mig langar til að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um þessi mál þar sem spilafíkn leggst mjög hart á fíkla og aðstandendur og þrátt fyrir loforð um viðbrögð á undanförnum árum hefur lítið gerst. Það er líka gott tilefni að ræða þessi mál núna í tengslum við t.d. skaðaminnkun í vímuefnamálum því að spilafíkn kallar einmitt á nákvæmlega sömu meðferð. Það getur því verið mjög skilvirkt að innleiða skaðaminnkun á víðtækan hátt, bæði í vímuefnamálum og vegna spilafíknar.