150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

spilafíkn.

[15:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þarna er spurningin hvor á að bera frumkvæðisréttinn eða hvor á að hafa frumkvæði að því að hefja lausnina. Ég tel að það sé tvímælalaust búið að setja það á herðar hins opinbera með forvarnastarfi og meðferðarstarfi. Án þess er að sjálfsögðu ákveðin skömm yfir þessum málaflokki. Það er skortur á þekkingu og hana þurfum við að fá. Tilgangur þess að bera þetta mál upp hérna er einmitt sá að vekja meiri athygli á þessu. Þessi fíkn er ekkert miklu öðruvísi en önnur fíkn, t.d. vímuefnafíkn eða tölvuleikjafíkn þótt það sé ekki endilega fjárhættuspil í því o.s.frv. Þetta er allt af sama meiði, þetta er sami sjúkdómur í rauninni þegar við tölum um þetta. Þess vegna minnist ég á þetta í tengslum við annað stórt mál sem við erum að glíma við í vímuefnamálum þar sem við erum að stíga fyrstu skrefin í átt að skaðaminnkun. Það er mjög augljóst, finnst mér, (Forseti hringir.) að við eigum að grípa tækifærið og ná þessu saman.