150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

fríverslunarsamningar við Bandaríkin.

[15:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður er að fara núna. Ég vek t.d. athygli á því hver eru helstu áherslumál okkar þegar kemur að norðurslóðamálum í okkar formennsku. Það er sjálfbærni, ekki bara í umhverfismálum heldur líka í efnahagsmálum og félagslega. Við leggjum sérstaka áherslu á málefni hafsins, loftslagsmál og grænar lausnir í orkumálum og í þriðja lagi á fólkið á norðurslóðum og styrkingu samfélaga.

Ég vissi ekki til þess að það væri nein gjá á milli neinna, og vona ekki, þegar kemur að þessu, pottþétt ekki í ríkisstjórninni og vonandi ekki í þinginu. Við höfum alveg verið skýr á þessu og ég veit ekki hversu oft ég er búinn að fara yfir þetta í ræðu og riti, viðtölum við innlenda og erlenda fjölmiðla og mun örugglega halda því áfram. En aðalatriði málsins er að með það svæði sem hér um ræðir, við erum að tala um norðurslóðirnar, viljum við áfram sjá það án spennu og að það sem þar fer fram verði byggt á alþjóðalögum. Við þurfum að hafa okkur öll við til (Forseti hringir.) að svo megi verða. Ég er ekkert að draga upp dökka mynd, ég er bara að segja að blikur í alþjóðamálum séu þannig að það er nokkuð sem við þurfum alltaf að vera meðvituð um í okkar störfum. Það höfum við verið og munum halda því áfram.